Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hitti þáverandi útvarpsstjóra RÚV, fréttastjóra 365 og ritstjóra 365 á fundum á meðan hann var forsætisráðherra. Á fundum með útvarpsstjóra og fréttastjóra 365 viðraði Sigmundur Davíð áhyggjur sínar af neikvæðri umfjöllun miðlanna í sinn garð. Ritstjóri 365 segist ekki hafa rætt fréttaflutning við þáverandi forsætisráðherra. Fregnir af ófaglegum samskiptum þeirra sé ímyndun.
Sigmundur flutti leiðara eftir fund
Þáverandi fréttastjóri 365, Sigurjón M. Egilsson, SME, var boðaður til Sigmundar í stjórnarráðið vegna fréttaumfjöllunar. Sigurjón talaði um fundinn í leiðara sínum í útvarpsþættinum Sprengisandi um síðustu helgi. Á fundinum sýndi Sigmundur Sigurjóni greiningu á gagnrýni fréttastjórans í skoðanapistlum sínum og samkvæmt henni hafi hann oftast gagnrýnt Framsóknarflokkinn. Tveimur mánuðum síðar var Sigurjón ekki lengur fréttastjóri 365.
Í maí 2015 fékk Sigmundur svo að lesa leiðarann í Sprengisandi hjá Sigurjóni. Í kynningunni á vef þáttarins segir: „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti inngangsorð þessa þáttar af tilefni tveggja ára afmæli ríkisstjórnar hans. Hann sagði meðal annars, að mörg tilefni séu til bjartsýni," skrifar Sigurjón.
Kristín segir fregnir af ófaglegum samskiptum „ímyndun"
Stundin greinir frá því í blaði sínu í dag að Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365, hafi talað við Sigurjón nokkru áður en hann hitti Sigmund Davíð. Þar segir að í samtalinu hafi Kristín gagnrýnt Sigurjón fyrir að vera „óhóflega neikvæður” í garð ríkisstjórnarinnar. Stundin segir Kristínu hafa hitt Sigmund á fundi þar sem umfjallanir um hann og ríkisstjórn hans voru til umræðu. Kristín staðfestir við Kjarnann að hún hafi fundað með þáverandi forsætisráðherra.
Í skriflegu svari sínu til Kjarnans vísar Kristín því á bug að hafa rætt fréttaflutning við Sigmund Davíð. Hún segist hafa hitt hann skömmu eftir að hún settist í ritstjórastól, en fréttaflutningur hafi ekki verið ræddur á þeim fundi. Þá segir hún:
„Hvorki nafn Sigurjóns Magnúsar Egilssonar né annarra starfsmanna á ritstjórn 365 bar á góma. Mér finnst mjög líklegt að ég hafi sagt Sigurjóni frá fundinum án þess að ég muni það nákvæmlega."
Spurð hvort hún hafi gagnrýnt Sigurjón fyrir að hafa verið „óhóflega neikvæður" í garð ríkisstjórnarinnar, segir Kristín:
„Nei. Hugmyndir sem fram hafa komið í dag um að ég eigi eða hafi átt í ófaglegum samskiptum við fyrrverandi forsætisráðherra eru ímyndun."
Útvarpsstjóri kallaður á teppið
Stundin greinir einnig frá því að sumarið 2013, eftir að ríkisstjórnin var mynduð, hafi Sigmundur, þá forsætisráðherra, boðað Pál Magnússon, þáverandi útvarpsstjóra, á fund í stjórnarráðinu þar sem hann sýndi honum þrjár möppur með úrklippum og afritum af gagnrýni RÚV á Framsóknarflokkinn. Í Stundinni kemur fram að möppurnar hafi talið nokkur hundruð blaðsíður. Sigmundur vitnaði líka í skoðanapistla ónafngreinds starfsmanns RÚV þar sem hann gagnrýndi flokkinn. Páll staðfestir við Stundina að fundurinn hafi átt sér stað. Hann hætti sem útvarpsstjóri nokkrum mánuðum síðar.
Magnús Geir Þórðarson, núverandi útvarpsstjóri, staðfestir einnig að honum hafi borist „ábendingar“ og „athugasemdir“ frá valdhöfum og fulltrúum þeirra. Hann vill ekki svara hvort þær hafi farið fram á fundum með forsætisráðherra. Í samtali við RÚV staðfestir hann að hann hafi gert athugasemdir við valdhafa þegar þeir koma með óviðgeigandi athugasemdir varðandi fréttaflutning RÚV.