Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segist vilja að ríkisstjórnin klári „mikilvæg verkefni sem liggja fyrir áður en boðað verður til kosninga.“ Hann sé enginn áhugamaður um að flýta kosningum til þingsins nema þessum mikilvægu verkefnum sé lokið áður. „Það liggur í raun ekkert á að kjósa en stjórnarandstaðan hefur hins vegar lagt ríka áherslu á að kjósa helst strax.“ Þetta kemur fram í pistli hans á Eyjunni.
Pistillinn fjallar um Dýrafjarðargöng, sem Ásmundur Einar segir að standi til að bjóða út í haust og hefja framkvæmdir á næsta ári. Kosningar fyrr hafi hins vegar áhrif á þetta.
Samgönguáætlun fyrir árin 2015 til 2018 gerir ráð fyrir að ráðist verði í göngin á næsta ári. „Áður en kosningum verður flýtt þá skulum við klára að afgreiða samgönguáætlun sem mælt var fyrir í síðustu viku,“ skrifar Ásmundur Einar og heldur áfram með fjárlögin. „Áður en kosningum verður flýtt þá skulum við klára að afgreiða fjárlög fyrir árið 2017 og tryggja þannig fjármagn til verkefnisins á næsta ári.“
Ásmundur Einar hefur áður talað fyrir því að ekki verði kosið í haust og sagði á fundi fyrir vestan í vikunni að ríkisstjórnin hefði umboð fram í apríl 2017. Forystumenn ríkisstjórnarinnar, Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson, hafa þó talað með öðrum hætti.