Panamaskjölin, gögn frá Mossack Fonseca sem þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst yfir og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavík Media og 109 öðrum fjölmiðlum víðsvegar um heim, hafa valdið miklum usla hér sem annars staðar. Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem nú vinnur úr skjölunum sem varða Ísland ásamt Reykjavík Media.
Á fimmtudag birtust í Kjarnanum þrjár greinar um umfangsmikil viðskipti hjónanna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur.
Félagið Guru Invest, sem skráð er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, og er með heimilisfesti í Panama, hefur fjármagnað fjöldamörg verkefni í Bretlandi og á Íslandi eftir hrun. Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður hennar, var skráður með prókúru í félaginu og tengist mörgum verkefnanna sem það hefur fjármagnað.
Þá greindi Kjarninn frá því að skuld tveggja félaga í eigu fjölskyldu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar var greidd úr félagi Ingibjargar árið 2010. Það voru 2,4 milljarðar sem greiddir voru upp í 3,3 milljarða skuld félaganna.
Þá er eignarhald og fjármögnun á Sports Direct á Íslandi að hluta til tengt félagi í Panama í eigu Ingibjargar. Félag Jóns Ásgeirs í Panama lánaði Þú Blásól 1,1 milljón evra. Panamaskjölin sýna hvernig fjármunum hefur verið ráðstafað frá Panama til Íslands.
Umfjöllun Kjarnans úr Panamaskjölunum má finna alla á þessari slóð.