Tekjur ríkissjóðs á árinu 2016 aukast í heild um tæpa 72 milljarða króna frá fjárlögum ársins samkvæmt uppfærðri tekjuáætlun sem gerð var í tengslum við útgáfu ríkisfjármálaáætlunar (voráætlunar) fyrir árin 2017–2021. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Um helmingur aukningarinnar er vegna stöðugleikaframlaga slitabúa föllnu bankanna. Hinn helmingurinn eða 36 milljarðar króna er að mestu til kominn vegna tekna af arði, en hluti aukningarinnar er vegna styrkingar tekjustofna í ljósi batnandi efnahags.
Hér er um að ræða fyrsta endurmat á tekjuáætlun ársins 2016, að því er segir í tilkynningunni. „Endurmatið er byggt á nýjum upplýsingum sem hafa komið til síðan fjárlagaáætlunin var gerð undir lok síðasta árs. Þessar upplýsingar eru einkum nýjustu gögn um álagningu og innheimtu skatta, uppfærð þjóðhagsspá Hagstofu í febrúar, áætlanir um útgreiðslu arðs frá Landsbanka og Íslandsbanka og loks breyttar forsendur um bókhaldslega meðferð stöðugleikaframlaga frá slitabúum,“ segir enn fremur.
Meðfylgjandi tafla sýnir tekjuáætlun ársins, annars vegar í fjárlögum og hins vegar í voráætlun og hvernig einstakir liðir breytast við endurmatið. Fyrst skal tekið fram að hækkun stöðugleikaframlags er alfarið vegna þeirrar ákvörðunar að tekjufæra framlagið í heild á þessu ári en þannig hliðrast tekjur yfir á árið 2016 sem áður var gert ráð fyrir að myndu bókfærast á næstu árum.