Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra rúmlega 85 þúsund undirskriftir í dag um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Þetta er stærsta undirskriftarsöfnun Íslandssögunnar og hefur staðið yfir í um þrjá mánuði.
Bændur sætti sig við minna
Fulltrúar allra flokka mættu til athafnarinnar sem haldin var í hátíðarsal Íslenskrar erfðagreiningar. Sigurður Ingi sagði framtakið eitt af því sem geri það að verkum að Íslendingar geti sameinast sem þjóð, eins og um íþróttir eða menningarlíf. Þá byggi þjóðin við býsna gott kerfi, sem gæti verið miklu betra. „Og þangað ætlum við að fara,“ sagði forsætisráðherra.
Kári sagðist geta tekið undir með Sigurði Inga og sagði hann vera að segja nokkurn vegin það sama og hann sjálfur vildi sagt hafa.
„Hann sagði að við værum með ágætis heilbrigðiskerfi, af því að hann er bóndi, og bændur hafa alltaf þurft að búa við verri kost en aðrir. Þannig að hann sættir sig við þá hluti sem ég mundi ekki sætta mig við," sagði Kári.
Stjórnvöld sýni fram á fjármögnun spítalans í fyrsta sinn
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mætti líka, ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra. Bjarni undirstrikaði fimm ára áætlun ríkisstjórnarinnar um aukið fjármagn til heilbrigðismála og ræddi við RÚV meðal annars um fjármögnun til byggingar á nýjum spítala. Búið væri að bæta kjör og nú þyrfti að bæta aðstæður, öryggi og jafnræði. Uppbygging heilsugæslunnar væri næst á dagskrá.
„Við erum í fyrsta sinn að sýna fram á fjármögnun spítalans og það er risastórt skref," sagði Bjarni.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði að þjóðin þyrfti að geta treyst því að búa ekki við stjórnvöld sem vega að þeim sáttmála sem gott heilbrigðiskerfi sé. Nauðsynlegt væri að stefna að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi og byrja þar á börnum og öryrkjum.
Undirskriftarsöfnunin snýst um að hvetja stjórnvöld til þess að verja ellefu prósent af vergri landsframleiðslu til heilbrigðiskerfisins. Nú er varið um það bil 8,7 prósentum og hefur Kári gagnrýnt það harðlega. Það sé mun minna heldur en gengur og gerist í löndunum í kring um okkur.