Markaðsvirði félaga sem skráð eru með hlutabréf í kauphöll Íslands, bæði á aðalmarkað og First North, stóð í 1.070 milljörðum króna í lok dags á fimmtudag, en í dag er markaðsvirðið um 1.022 milljarðar króna. Þetta þýðir að markaðsvirði skráðra félaga hefur lækkað um 48 milljarða á tveimur viðskiptadögum, það er föstudag og síðan í dag.
Nær öll félögin í kauphöllinni hafa lækkað í dag, en Icelandair mest af öllum, eða um 3,47 prósent. Icelandair lækkaði líka mest allra félaga á föstudaginn, eða um 7,4 prósent.
Gengi þriggja félaga hefur staðið í stað, það er Símans, Vodafone og Nýherja.
Samkvæmt viðskiptavefnum Keldunni hefur mesta veltan í dag verið með bréf Icelandair, eða 1,5 milljarður króna.
Gengi krónunnar hefur styrkst nokkuð að undanförnu, og fór evran í fyrsta skipti frá hruni niður fyrir 140 krónur.