Fréttablaðinu verður stefnt í næstu viku fyrir birtingu forsíðufréttar um meintar nauðganir í Hlíðunum í Reykjavík. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður tveggja manna sem nafngreindir voru á samfélagsmiðlum eftir birtingu fréttarinnar, segist reikna með að stefnan verði þingfest strax eftir næstu helgi. RÚV greindi frá málinu.
Í byrjun febrúar ítrekaði Vilhjálmur kröfur sínar til Fréttablaðsins um að það greiði umbjóðendum sínum 20 milljónir í miskabætur fyrir fréttina og biðjist afsökunar vegna umfjöllunar blaðsins um málið. Fréttablaðið neitaði þessum kröfum og hefur Kristín Þorsteinsdóttir, ritstjóri blaðsins, sagt að blaðið standi við fréttina.
Forsíðufréttin var kveikjan
Forsaga málsins er sú að Fréttablaðið birti forsíðufrétt í nóvember síðastliðnum undir fyrirsögninni: Íbúð í Hlíðunum útbúin til nauðgana. Áður hafði verið sagt frá rannsókn lögreglu á tveimur aðskildum kynferðisbrotamálum vegna meintra árása í fjölbýlishúsi í Hlíðahverfi í Reykjavík í október. Tvær konur kærðu tvo karlmenn fyrir kynferðisbrot í málinu og í frétt Fréttablaðsins sagði að „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar“. Fram kom í fréttinni að mönnunum hafði svo verið sleppt að lokinni skýrslutöku.
Mikil reiðialda reis í kjölfar fréttarinnar, boðað var til mótmæla fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu og mennirnir voru nafngreindir á samfélagsmiðlum og birtar af þeim myndir.
Rannsóknir á nauðgunarkærunum fóru á borð héraðssaksóknara og lét hann bæði málin niður falla. Annar maðurinn hafði einnig kært aðra konuna fyrir kynferðisbrot en það mál var líka látið niður falla.
Kröfubréf til 22 einstaklinga
Í síðustu viku sendi Vilhjálmur 22 einstaklingum kröfubréf þar sem krafist var afsökunarbeiðni og miskabætur vegna ummæla sinna og tvær kærur, er fram kemur hjá RÚV. Þar segir að fólkið hafi fengið bréfin af ólíkum ástæðum, sumir fyrir að skrifa fréttir um málið, einn fyrir status á Facebook þar sem mennirnir voru nafngreindir og myndbirtir og sagðir nauðgarar. Þeirri stöðufærslu var deilt 2.350 sinnum, að talið er. Tvær kærur voru lagðar fram vegna Facebook-síðu sem búin var til úr fornöfnum mannanna,
Lagðar voru fram tvær kærur hjá lögreglu vegna Facebook-síðu sem búin var til úr fornöfnum mannanna. Vilhjálmur segir að á þeirri síðu hafi verið settur allskyns óhróður um mennina tvo. Þá hafi maður verið kærður til lögreglu fyrir að hvetja til ofbeldis gegn mönnunum á Facebook.
„Ég taldi nauðsynlegt að senda þeim sem bera ábyrgð á þessu lögum samkvæmt kröfubréf áður en ég stefni viðkomandi miðli," segir Vilhjálmur í samtali við Kjarnann. Hann segir mögulegt að stefnurnar verði tvær, annars vega ómerking ummæla og miskabætur, og svo verði höfðað sérstakt mál um skaðabætur fyrir fjártjón, atvinnutjón, varanlegan miska og varanlega örorku. Að sögn Vilhjálms eru mennirnir tveir enn atvinnulausir og í sálfræðimeðferð eftir fréttaflutninginn.
Engin viðbrögð hafa borist frá Fréttablaðinu um málið önnur en þau að blaðið standi við frétt sína.