Ríkisstjórn Íslands samþykkti í morgun nýjar siðareglur. Þær byggja á siðareglum sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur setti árið 2011 en á þeim hafa verið gerðar „ákveðnar lagfæringar í samræmi við lög um Stjórnarráð Íslands, auk orðalagsbreytinga með hliðsjón af nýjum siðareglum þnigmanna, einkum er varðar hagsmunaárekstra.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Þær breytingar sem gerðar hafa verið á siðareglunum frá því sem var hjá síðustu ríkisstjórn eru á fyrstu málsgrein 2. greinar sem var svona: „Ráðherra forðast hagsmunaárekstra og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín.“ Nú er sú málsgrein svona: „Ráðherra forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín. Takist honum ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá.“
Þá er búið að taka út
grein sem fjallaði um samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir
stjórnsýsluna, sem var sett á laggirnar í tíð síðustu ríkisstjórnar. Nefndin
var lögð niður í vetur samkvæmt frumvarpi þáverandi forsætisráðherra, Sigmundar
Davíðs Gunnlaugssonar. Þess í stað á að bera siðferðileg vafamál undir
forsætisráðuneytið sjálft.
Samhæfingarnefndin
átti að stuðla að því að siðferðileg viðmið væru í hávegum höfð í opinberum
störfum og veita stjórnvöldum ráðleggingar um ráðstafanir til að koma í veg
fyrir hagsmunaárekstra og spillingu. Hún átti líka að stuðla að því að brugðist
væri með samhæfðum hætti við upplýsingum um brot á siðareglum eða hættu á
spillingu hjá ríkinu.
Sigmundur undirritaði ekki nýjar siðareglur
Sigmundur Davíð undirritaði ekki nýjar siðareglur fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar á meðan að hann sat sem forsætisráðherra. Á meðan svo var höfðu siðareglur, sem síðasta ríkisstjórn setti og núverandi ríkisstjórn hefur sagst líta til, ekki stjórnsýslulegt gildi.
Umboðsmaður Alþingis, sem á að gæta þess samkvæmt lögum að stjórnsýslan fari fram í samræmi við siðareglurnar, gat því ekki látið í ljós álit sitt á því hvort brotið hafi verið gegn siðareglum.
Hægt er að lesa nýjar siðareglur ríkisstjórnar Íslands hér.