Forsætisráðuneytið sendi frá sér frétt í dag sem byggði á röngum upplýsingum. Fréttin var um að tekjujöfnuður hafi aldrei verið meiri á Íslandi en árið 2014 og átti að byggja frá tölum þess árs. Raunin er að tölurnar sem forsætisráðuneytið studdist við voru frá árinu 2013.
Í frétt forsætisráðuneytisins sagði að tekjujöfnuður hafi aldrei verið meiri á Íslandi en árið 2014, og það ár hafi ekkert Evrópuríki búið við jafnmikinn tekjujöfnuð og Ísland. Fréttin byggði á tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Eyjan greinir frá því að fréttin hafi verið byggð á röngum forsendum, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. Tölurnar sem Eurostat notar byggja á Evrópsku lífskjararannsókninni og endurspegla tekjumælingar ársins á undan, það er upplýsingar fyrir árið 2013.
„Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sagði í samtali við Eyjuna að um mistök hafi verið að ræða. Rétt sé að upplýsingarnar sem um ræði nái til tekna fyrir árið 2013 en ekki 2014. Til standi að senda út leiðréttingu vegna þessa nú á næstunni," segir í frétt Eyjunnar.
Uppfært klukkan 16:30: Fréttin var uppfærð eftir að ljóst var að frétt forsætisráðuneytisins var röng.
Upprunarlegu fréttina má sjá hér að neðan:
Tekjujöfnuður hefur aldrei verið meiri á Íslandi en árið 2014, og það ár bjó ekkert Evrópuríki við jafnmikinn tekjujöfnuð og Ísland. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu, sem byggir á nýjum tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Samkvæmt Gini-stuðlinum, sem er notaður sem mælikvarði á tekjudreifingu, fóru Íslendingar fram úr Norðmönnum í tekjujöfnun árið 2014, en árin á undan höfðu Norðmenn verið með lægstan Gini-stuðul og þar með með mestan tekjujöfnuð. Stuðullinn fyrir Ísland lækkaði úr 24 árið 2013 í 22,7 árið 2014.
Samkvæmt skilgreiningu Eurostat eru þeir, sem eru með lægri ráðstöfunartekjur eftir opinberar tilfærslur en sem nemur 60 prósentum af miðgildi ráðstöfunartekna, í hættu á að verða fátækt að bráð. Á Íslandi eru 7,2 prósent þjóðarinnar með ráðstöfunartekjur undir 60% af miðgildinu, en það er lægra hlutfall en hjá öðrum Evrópuríkjum. Hlutfallið mælist á bilinu 11 til 15 prósent á hinum Norðurlöndunum en meðaltalið í Evrópusambandinu er 16,3%. Miðgildi tekna er svipað á Íslandi og í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, en tekjur eru hærri í Noregi, segir í tilkynningu forsætisráðuneytisins.