Bæði einræðisherrar sem sitja lengi á valdastóli og lýðræðislega kjörnir stjórnmálaleiðtogar, fjármálamenn og aðrir valdamenn geta orðið valdafíkn og spillingu að bráð, og það virðist vera að það sé hægt að finna efnafræðilegt samhengi á milli valda og hroka.
Þetta kemur fram í grein um völd og valdafíkn sem Torfi Magnússon, taugalæknir á Landspítalanum, skrifar í nýjasta tölublað Læknablaðsins.
Torfi segir að breytingar sem verða á hegðun margra sem öðlast áhrif og völd hafi lengi verið mönnum hugleiknar. Þær rannsóknir sem gerðar hafi verið á efnafræðilegu samhengi valda og hroka hafi einkum tengst karlhormóninu testósteróni og vellíðunar- eða vímuhormóninu dópamíni.
Þótt dópamín sé efni vellíðunar tengist það líka mjög spennu og fíkn og efnafræðileg breyting geti orðið hjá vellukkuðum valdamanni og sigurvegara. Það getur orsakað valdavímu. „Eins og með aðra vímu getur myndast þol og sífellt stærri skammta og fleiri sigra þarf þá til að ná sömu áhrifum. Auk valdavímunnar getur þróast valdafíkn. Hvort úr verður hreinn valdhroki ræðst af fleiri þáttum, meðal annars tímalengd valda og valdaþörf einstaklingsins,“ skrifar Torfi.
Valdavíma geti verið mikilvæg og jafnvel nauðsynleg fyrir leiðtoga undir miklu álagi. „Hins vegar getur valdavíman leitt leiðtogann inn í vítahring. Til að viðhalda vellíðaninni þarf síendurtekið flæði testósteróns og dópamíns og það kallar á sífellt nýja sigra. Úr verður fíkn, valdafíkn. Hitti valdafíknin á sjálfmiðaðan einstakling með mikla þörf fyrir persónutengd völd sprettur upp valdhroki. Valdhrokanum fylgir spilling og fleiri lestir.“
Góður leiðtogi þurfi þannig að vera fremstur meðal jafningja og vilja hafa völd og sigurvilja, en sigurviljinn þurfi „að vera fyrir „okkur“ en ekki fyrst og fremst fyrir „mig.““ Þannig sé valdamikill leiðtogi, fullur valdhroka, heiminum hættulegur. „Lýðræði var innleitt í Grikklandi sem svar við valdhroka og spillingu og til að takmarka valdatíma leiðtoga. Stjórnarskrárbundin takmörkun á valdatíma leiðtoga nútímans getur stutt við sama markmið.“