Landsbankinn ætlar að endurgreiða viðskiptavinum sínum uppgreiðslugjöld vegna íbúðalána sem bera fasta vexti, í þeim tilfellum þar sem bankinn getur endurlánað á sömu eða hærri vaxtakjörum. Ákvörðunin er afturvirk og nær til íbúðalána með föstum vöxtum sem hafa verið veitt frá október 2011. Frá þessu greindi RÚV í kvöld.
Viðskiptavinur bankans, sem fréttastofa RÚV ræddi við, hefur fengið endurgreiddar rúmar 260 þúsund krónur auk vaxta, vegna uppgreiðslugjalds sem hann greiddi bankanum.
Hann sendi erindi til FME í janúar á þessu ári, þar sem hann krafðist þess að Landsbankanum yrði gert að greiða sér rúmar 260 þúsund krónur, auk dráttarvaxta, vegna uppgreiðslugjalds sem bankinn hafði gert honum að greiða.
Maðurinn tók íbúðalán til fimm ára vegna íbúðar sem hann festi kaup á í október árið 2014. Þegar maðurinn seldi íbúðina í desember 2015 greiddi hann lánið upp þar sem kaupandinn hafði ekki áhuga á að yfirtaka lánið. „Bankinn rukkaði hann hins vegar um rúmlega 260 þúsund króna uppgreiðslugjald vegna þess. Maðurinn taldi hins vegar að bankanum væri óheimilt að innheimta gjaldið. Vísaði hann í að lög um neytendalán heimiluðu ekki slíkt gjald og að nýtt frumvarp til laga um fasteignalán staðfesti þann skilning. Þá hefði Arion banki breytt verklagsreglum sínum í takt við þann skilning og endurgreitt viðskiptavinum sínum ofgreidd uppgreiðslugjöld á árinu 2015,“ segir í frétt RÚV.
Ekki liggur fyrir hvort þessi ákvörðun muni hafa áhrif á stöðu mála hjá Íslandsbanka, í sambærilegum tilvikum, en hjá Arion banka var verklagi breytt í fyrra og uppgreiðslugjöld endurgreidd.