Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segist hafa misskilið spurningu fréttamanns á CNN um það hvort upplýsingar ættu eftir að koma fram sem tengdu hann, eiginkonu eða fjölskyldu við aflandsfélög. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem forsetinn hélt á Bessastöðum í dag.
„Þegar ég er spurður um mína fjölskyldu þá skil ég spurninguna; fjölskylda mín á Íslandi og Dorrit. Þannig að ég var engan hátt að svara fyrir foreldra Dorritar eða aðra ættmenn hennar,“ sagði Ólafur Ragnar, að því er kemur fram á RÚV.
Ólafur Ragnar sagði á fundinum að hann teldi ekki að fréttaflutningur af honum og Dorrit Moussaieff, konu hans, og fjölskyldu hennar, hafi skaðað orðspor hans. Engin ástæða sé til að draga framboð hans til forseta til baka vegna þessarar umræðu, vegna þess að hann telji efnisatriði málsins alveg skýr.
Fjölmiðlar eins og Guardian, Le Monde og Süddeutsche Zeitung hafa greint frá tengslum Dorritar við aflandsfélög og bankareikninga hjá HSBC í Sviss.
Í fréttum miðlanna segir m.a. að Moussaieff-fjölskyldan, þar á meðal systur Dorritar, þæ Tamara og Sharon, hafi átt reikninga með allt að 80 milljón dala innstæðum í HSBC bankanum í Sviss á árunum 2006 og 2007. Þar kemur þó sérstaklega fram að Dorrit virðist ekki sjálf koma að flestum reikningunum. Auk þess sýni upplýsingarnar að Dorrit hafi átt hlut á móti fjölskyldu sinni í Jaywick Properties Inc, sem skráð er til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum og félaginu Moussaieff Sharon Trust. Sérstaklega er tekið fram að gögnin sýni ekki fram á að forsetafrúin hafi gert neitt ólöglegt.
Kjarninn greindi einnig frá því fyrir skömmu að félag í eigu fjölskyldu Dorritar átti félag skráð á Bresku Jómfrúareyjunum frá árinu 1999 til ársins 2005. Félagið, sem heitir Lasca Finance Limited, er að finna í gögnum frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Árið 2005 seldi fjölskyldufyrirtækið Moussaieff Jewellers Ltd. tíu prósenta hlut sinn í Lasca Finance til hinna tveggja eigenda þess. Þeir voru S. Moussaieff og „Mrs." Moussaieff. Þetta sýndu gögn sem Kjarninn og Reykjavík Grapevine eru með undir höndum.
Ólafur Ragnar segir hins vegar, líkt og Dorrit gerði í yfirlýsingu í vikunni, að hún hafi aldrei átt reikninga hjá HSBC. „Þó að foreldrar hennar hafi gert það enda hafa foreldrar hennar stundað viðskipti og verslunarrekstur í Sviss í áratugi. Þannig að hún hefur aldrei tengst þessum svissneska banka, gagnstætt því sem menn hafa verið að fullyrða í þessum miðlum hér.“
Hann segir Dorrit ekki hafa neina tengingu við fyrirtækið Jaywick og ekkert vitað um það, heldur hafi það verið „alfarið málefni foreldra hennar.“