Landsvirkjun og Thorsil hafa skrifað undir samning um afhendingu á rafmagni til kísilvers Thorsil í Helguvík. Landsvirkjun mun sjá Thorsil fyrir 55 megavöttum af afli, eða sem samsvarar 460 gígavattstundum af orku á ári. Afhending orkunnar hefst árið 2018 þegar áætlað er að kísilverið taki til starfa, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsvirkjun.
Samningurinn er háður skilyrðum, meðal annars verður Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, að samþykkja hann til þess að hann taki gildi.
Í október í fyrra var greint frá því að fyrirtækin hefðu komist að samkomulagi um drög að rafmagnssamningi, en þá var gert ráð fyrir því að Landsvirkjun myndi afhenda allt að 67 megavött í áföngum. HS Orka hefur einnig undirritað orkusölusamning við Thorsil um afhendingu á allt að 32 megavöttum, en Thorsil hefur sagt að fyrirtækið þurfi 87 megavött til að framleiðla 54 þúsund tonn af kísilmálmi á ári.
Umdeild bygging kísilvers
Reykjanesbær glímir við mikinn skuldavanda. Sveitarfélagið er það skuldsettasta á landinu. Skuldir þess voru tæplega 41 milljarður króna í lok árs 2014. Skuldirnar eru rúmlega 250 prósent af reglulegum tekjum sveitarfélagsins en samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 þá er leyfilegt skuldahlutfall að hámarki 150 prósent. Skuldastaða Reykjanesbæjar er því beinleiðis í andstöðu við lög.
Skuldavandinn er að stóru leyti tilkominn vegna fjárfestinga í hafnarframkvæmdum við Helguvík, Reykjaneshöfn, sem sveitarfélagið er í ábyrgð fyrir. Fjárfestingarnar hafa tengst áætlaðri uppbyggingu ýmissar stóriðju í Helguvík.
Thorsil er stærsti viðskiptavinur Reykjaneshafnar, en höfnin hefur ítrekað gefið Thorsil greiðslufrest á gatnagerðargjöldum vegna lóðarinnar undir kísilverksmiðjuna. Gjöldin átti að greiða 30. september síðastliðinn en frestur fékkst til 15. desember, svo til 15. mars og nú til 15. maí.