Seðlabankinn gerir ráð fyrir meiri hagvexti á þessu ári og því næsta en áður, en jafnframt er spáð meiri verðbólgu. Þetta kemur fram í nýjum Peningamálum, sem komu út samhliða vaxtaákvörðun Seðlabankans í morgun.
Hagvöxtur er talinn hafa verið fjögur prósent á Íslandi í fyrra, samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofunni, og búist er við því að í ár verði hann 4,5 prósent. Það er vegna mikils vaxtar í innlendri eftirspurn og einnig kröftugs útflutningsvaxtar.
Seðlabankinn spáir því jafnframt að hagvöxturinn verði meiri en áður var talið á næsta ári, eða fjögur prósent í stað 3,4 prósenta. Ef þetta gengur eftir verður það þriðja árið í röð sem hagvöxtur á Íslandi er um og yfir fjögur prósent. „Svo mikill hagvöxtur er langt umfram langtímahagvaxtargetu þjóðarbúsins og óhjákvæmilegt að nokkuð hægi á hagvexti á næstu árum að öðru óbreyttu.“
Atvinnuþátttaka orðin eins og 2007
Seðlabankinn talar einnig um þann mikla kraft sem sé á innlendum vinnumarkaði og birtist meðal annars í fjölgun starfa og vaxandi atvinnuþátttöku. Atvinnuþátttaka á Íslandi er komin í 83 prósent, þegar tekið er tillit til árstíðasveiflna, sem er svipað og þegar mest var fyrir kreppu, í byrjun ársins 2007. Seðlabankinn segir að atvinnuleysi sé því orðið minna nú en ætla megi að samræmist verðstöðugleika.
„Samkvæmt spánni heldur atvinnuleysi áfram að minnka og verður 3,3% að meðaltali í ár. Það er um ½ prósentu minna atvinnuleysi en spáð var í febrúar og endurspeglar horfur á þróttmeiri efnahagsumsvifum en þá var gert ráð fyrir. Af sömu ástæðum er talið að framleiðsluspennan verði heldur meiri í ár en þá var spáð,“ segir í Peningamálum. Gert er ráð fyrir því að spennan taki að minnka á næsta ári og atvinnuleysi muni þokast upp á ný.
Verðbólguhorfur versna
Verðbólga hefur nú verið undir markmiði Seðlabankans í meira en tvö ár, en hún var 1,6 prósent í apríl síðastliðnum. Að mestu leyti er lág verðbólga vegna innfluttrar verðhjöðnunar og hærra gengis krónunnar. Þar munar mjög miklu um lágt verð á olíu. Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að verðbólgan muni aukast þegar líður á árið og verði komin í þrjú prósent undir lok þess. „Hins vegar eru horfur á meiri verðbólgu á seinni hluta næsta árs og framan af árinu 2018 en spáð var í febrúar sem skýrist fyrst og fremst af því að efnahagsumsvif eru nú talin vaxa hraðar og að framleiðsluspenna verði því meiri.“
Launahækkanir eru áfram helsta ástæðan fyrir vaxandi verðbólguþrýstingi, bæði beint og óbeint. Seðlabankinn spáir því nú að verðbólga nái hámarki í 4,5 prósentum á seinni hluta næsta árs, en hjaðni á ný niður fyrir þrjú prósent um mitt ár 2019.