Anna Sigurlaug Pálsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson greiddu um 300 milljónir íslenskra króna í skatta á tímabilinu 2007 til 2015. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að félaginu Wintris, í eigu Önnu Sigurlaugar, eiginkonu forsætisráðherra, hafi aldrei verið leynt og eignir þess hafa aldrei verið í skattaskjóli.
Morgunblaðið vitnar í gögn frá Sigmundi Davíð sem unnin eru af KPMg þar sem hann greinir frá eignum og skattgreiðslum þeirra hjóna um áratug aftur í tímann.
Reiknað til núvirðis má áætla að skattgreiðslur af eignum Önnu Sigurlaugar nemi hátt í 400 milljónum. Í gögnunum kemur einnig fram að fjármagnstekjur frá Wintris á árunum 2009-2015 nemi samtals 324.187.102 kr. en fjármagnstekjuskatturinn nemur samtals 174.283.895 kr. á árunum 2007-2015.
Sigmundur Davíð hefur birt gögnin á heimasíðu sinni. Þar segir hann að undangengin ár hafi það verið viðtekin krafa að stjórnmálamenn geri gein fyrir eigum sínum og ýmsir telja að eðlilegt sé að einnig sé gerð grein fyrir skuldum.
„Færa má sterk rök fyrir því. Það er ekki jafn augljóst að gera eigi kröfu um að stjórnmálamenn birti upplýsingar um fjármál fjölskyldu sinnar. Ég hef þó lýst mig reiðubúinn til þess að birta slík gögn ef aðrir forystumenn í stjórnmálum gerðu slíkt hið sama," segi Sigmundur.