Héraðssaksóknari hefur ákveðið að ákæra ekki í svokölluðu Pace-máli. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest hjá embættinu. Rannsókn á málinu, sem snýst um þriggja milljarða króna lánveitingu frá íslenska fjárfestingafélaginu Fons, þá í eigu athafnamannanna Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, til panamska félagsins Pace Associates í apríl 2007 hefur staðið yfir árum saman. Samkvæmt fréttaflutningi DV og RÚV árið 2010 runnu milljarðarnir þrír að endingu í vasa Pálma og athafnamannanna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Hannesar Smárasonar. Þeir hafa ætið neitað því.
Upplýsingar um Pace Associates Corp. er að finna í Panamaskjölunum. Reykjavik Media hefur birt frétt þar sem fram kemur að Hannes hafi verið með prókúru í félaginu þegar það fékk þriggja milljarða króna lán frá Fons eignarhaldsfélagi árið 2007. Pace fékk einnig 50 milljóna evra lán frá Landsbankanum gegn veði í hlutabréfum í félaginu sjálfu, samkvæmt fréttinni. Í skjölunum kemur hins vegar ekki fram hverjir endanlegir eigendur Pace voru.
Fjölmiðlaumfjöllun fyrir sex árum síðan
Félagið Pace var mikið til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum árið 2010. Þá fjallaði DV um það í tengslum við þriggja milljarða króna lánveitingu fjárfestingafélagsins Fons, þá í eigu athafnamannanna Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, til Pace Associates í apríl 2007.
RÚV sagði fréttir af því árið 2010 að peningarnir sem lánaðir voru til Pace hafi á endanum runnið í vasa Pálma, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Hannesar Smárasonar. Lánaviðskiptin fóru fram í gegnum Landsbanka Íslands í Lúxemborg, en sá banki var í miklum viðskiptum við lögfræðistofuna Mossack Fonseca í Panama um stofnun aflandsfélaga. Í fréttinni sagði að lánasamningurinn hafi verið útbúinn sex dögum eftir að millifærsla fjárhæðarinnar átti sér stað og um hafi verið að ræða svokallað kúlulán þar sem öll fjárhæðin var á gjalddaga þremur árum eftir gerð lánasamningsins. Í fréttinni var enn fremur sagt frá því að sama dag og gengið var frá lánasamningnum, þremur árum fyrir gjaldaga, hafi lánið í heild verið afskrifað í bókhaldi Fons.
Höfðuðu meiðyrðamál og unnu
Jón Ásgeir og Pálmi höfðuðu meiðyrðamál gegn fréttamanninum sem sagði fréttina og unnu þau á endanum fyrir Hæstarétti. Fréttamaðurinn, Svavar Halldórsson, sagði í Facebook-stöðuuppfærslu í kjölfar dóms í málinu sem Jón Ásgeir höfðaði: „Fréttin er sönn, til eru gögn fyrir öllum efnisatriðum umræddrar viðskiptafléttu og málið er til rannsóknar á fleiri en einum stað í kerfinu (eins og staðfest er í yfirlýsingu Sérstaks saksóknara). Sá hluti fréttarinnar sem fjallaði um hvernig yfirvöld töldu raunverulega í pottinn búið, byggðist hins vegar á trúnaðarupplýsingum frá heimildarmönnum sem ekki geta komið fram. Þeirra trúnaði mun ég ekki bregðast! Jóni Ásgeiri tókst engan vegin að sýna fram á að neitt rangt við fréttina – enda er þetta allt rétt."