Virðisaukaskattsvelta (VSK) vegna veitingahúsa og gististaða hefur stóraukist á milli ára, sé horft til janúar og febrúar. Aukningin nemur 28 prósentum, en í fyrra var hún 14,1 milljarður en á þessu ári 18,1 milljarður. Skýringuna er að finna í því að vörugjöld á áfengi hafa hækkað.
Um áramótin tóku í gildi breytingar á vörugjöldum, m.a. hækkaði vörugjald á áfengi um leið og áfengi var fært úr efra þrepi virðisaukaskatts í neðra.
Virðisaukaskattur leggst ofan á vörugjald og því veldur hækkun vörugjalds hækkun á virðisaukaskattsskyldri veltu. Hækkanir á vörugjaldi á áfengi valda því veltuaukningu í liðum sem Hagstofa Íslands skilgreinir sem „Heild- og smásöluverslun“ og „Rekstur gististaða og veitingarekstur“.
Sé horft til samanburðar á tólf mánaða tímabili, frá mars 2014 til febrúar í fyrra, og síðan frá mars í fyrra til febrúar á þessu ári, þá nemur aukningin um 20 prósentum. Heildar VSK-velta veitingahúsa og gististaða nam 115 milljörðum milli áranna 2014 til 2015, en 138 milljörðum milli áranna 2015 og 2016.
Velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi í janúar og febrúar 2016 nam 551 milljörðum króna, sem er 5 prósent aukning miðað við sama tímabil árið 2015, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Á síðustu tólf mánuðum er aukningin níu prósent samanborið við tólf mánuði þar áður.