Dagana 6. til 9. maí kannaði MMR afstöðu almennings gagnvart því að Ísland gangi í Evrópusambandið (ESB). Í ljós kom að yfir helmingur svarenda (51,4%) kváðust andvígir eða mjög andvígir því að Ísland gangi í Evrópusambandið, en rétt rúmlega fjórðungur (27,1%) svarenda sögðust hlynntir eða mjög hlynntir því að Ísland gangi í Evrópusambandið.
Þetta kemur fram í frétt frá MMR.
Töluverður munur er á afstöðu fólks til ESB eftir samfélagslegri stöðu og búsetu, að því er segir í frétt MMR. „Þegar afstaða almennings gagnvart inngöngu Íslands í ESB er skoðuð eftir samfélagshópum kemur í ljós að fólk sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu er mun hlynntara inngögnu Íslands í ESB heldur en fólk sem býr á landsbyggðinni. Eldri aldurshópar og konur eru einnig líklegri til að vera andvíg inngöngu í ESB heldur en karlar og þau sem yngri eru. Þau sem búa á tekjuhærri heimilum virðast einnig vera líklegri til að vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB,“ segir í fréttinni.
Langflest þeirra sem styðja ríkisstjórnina eru andvíg inngöngu Íslands í ESB, en meðal þeirra sem styðja ekki ríkisstjórnina eru ívið fleiri sem eru hlynnt inngöngu Íslands í ESB. Þá er stuðningsfólk Framsóknar og Sjálfstæðismanna mun líklegra til að vera andvígt inngöngu Íslands í ESB, en flestir stuðningsmanna Samfylkingarinnar eru hlynntir inngöngu í ESB. Meðal stuðningsmanna Pírata er meirihluti hlynntur inngöngu Íslands í ESB, en jafnari dreifing er á afstöðu stuðningsmanna Vinstri-grænna og Bjartrar framtíðar.
Úrtak könnunarinnar voru einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Svarfjöldi var 947 einstaklingar.
Dagsetning framkvæmdar: 6. til 9. maí 2016.