Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar mælast með mest fylgi í nýrri könnun 365. Sjálfstæðisflokkur mælist með örlítið meira fylgi, 31,3 prósent, en Píratar með 30,3 prósent. Vinstri græn mælast með 19,8 prósenta fylgi, en fylgi Samfylkingar og Framsóknarflokks er í sögulegum lægðum. Samfylkingin mælist með 7,4 prósent og Framsóknarflokkur með 6,5 prósent. Björt framtíð mælist með 3,1 prósent og er því dottin út af þingi í heild sinni ef kosið væri í dag. Þetta kemur fram í könnun 365 sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
Ef niðurstaða könnunar 365 yrði niðurstaða Alþingiskosninga væri möguleiki á þrenns konar tveggja flokka stjórnum: Sjálfstæðisflokks og Pírata, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna og Pírata og Vinstri grænna. Haft er eftir Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, í Fréttablaðinu að hún telji afar ólíklegt að flokkurinn fari í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki eftir næstu kosningar. Eðlilegast væri að stjórnarandstaðan myndi ríkisstjórn, nái hún kjöri.
Framsóknarflokkur missir 15 þingmenn
Miðað við niðurstöður könnunarinnar mundi Sjálfstæðisflokkurinn bæta við sig tveimur þingmönnum frá síðustu kosningum og ná 21 þingmanni inn. Píratar yrðu 20 á þingi, sem er fjölgun um 17 þingmenn, Vinstri græn mundu ná þrettán mönnum inn, sem væri fjölgun um sjö, Samfylkingin fengi fimm, þannig að þau missa tvo, og Framsóknarflokkurinn næði fjórum inn, sem er fækkun um 11 þingmenn.
Könnun 365 var gerð á mánudag 9. maí og svöruðu 799, en 516 tóku afstöðu.