Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra mæta í sína fyrstu opinberu heimsókn í dag. Um er að ræða opinbera heimsókn leiðtoga Norðurlandanna í boði Barack Obama Bandaríkjaforseta. Fyrsta opinbera heimsókn íslensk ráðmanns til Bandaríkjanna var árið 1944 þegar Sveinn Björnsson, forseti Íslands, fór ásamt þáverandi utanríkisráðherra til Washington að hitta Franklin D. Roossevelt forseta.
Að þessu sinni munu forseti Finnlands og forsætisráðherrar hinna fjögurra Norðurlandanna funda með Obama og allir utanríkisráðherrarnir funda með John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Til stendur að ræða meðal annars aukið samstarf milli landanna, aukna fríverslun, samstarf til að sporna gegn hryðjuverkaógninni og uppgangi öfgasinna, umhverfismál, málefni Norðurslóða og flóttamannamál.
Norrænir utanríkisráðherrar taka höndum saman
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna birtu sameiginlega grein í Huffington Post í vikunni þar sem rætt var um mikilvægi áframhaldandi samstarfs ríkjanna. Í greininni er áhersla lögð á að styrkleikar landanna beggja vegna Atlandshafsins nái að njóta sín í samvinnu ríkjanna. Ráðherrarnir segja að norræna módelið hafi þjónað íbúum sínum vel, með efnahagslegri velmegun og góðu velferðarkerfi. Einkenni norræna kerfisins séu mikið traust almennings á stjórnmálum og áhersla á jöfn tækifæri.
Utanríksráðherrarnir hrósa Bandaríkjunum fyrir að veita öðrum þjóðum innblástur þegar það kemur að sterkum hugsuðum og þróun nýrra hugmynda. Töluverð áhersla er einnig lögð á jafnrétti kynjanna, en afstaða greinarhöfunda að mikilvægt sé að konur séu hluti af friðarumleitunum og sé tryggt sæti við borðið er ítrekuð. Þá er farið er yfir sameiginlega hagsmuni ríkjanna sex, áskoranir og tækifæri, þar sem sameiginlegur ávinningur af samstarfi landanna er undirstrikaður.
Þétt dagskrá í dag
Fundurinn í dag hefst með því að Obama tekur formlega á móti leiðtogunum við Hvíta húsið við hátíðlega athöfn. Dagskráin verður þétt, utanríkisráðherrar snæða hádegisverð í boði John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og endar dagurinn á kvöldverðaboði í boði forsetans og forsetafrúarinnar, Michelle Obama. Fréttaritari Kjarnans verður á staðnum og hægt verður að fylgjast með framgangi fundarins á Twitter undir myllumerkinu #heimsoknUSA.