Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að það sé engin sanngirni í því að taka sérstakt gjald af einni atvinnugrein eins og sjávarútvegi. Það væri skynsamlegt að gera ekki upp á milli atvinnugreina sem nýti auðlindir landsins og best væri að nota skattkerfið til að fá auðlindagjald í ríkissjóð.
Gunnar Bragi svaraði fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, um sjávarútvegsmál í þinginu í dag. Oddný spurði hann um veiðigjöld. „Við Íslendingar erum rík af auðlindum en við erum ekki góð í að semja um verð fyrir nýtingu þeirra. Útgerðarfyrirtæki greiða til dæmis veiðigjald sem er langt undir markaðsverði. Ég tel að opinbert útboð sé skilvirkasta leiðin til að skila arðinum af fiskveiðiauðlindinni til þjóðarinnar,“ sagði Oddný meðal annars.
„Við notum nú þegar útboð á útblástursheimildum, fjarskiptatíðnisviðum og sérleyfum í samgöngum með góðum árangri. Útboð myndi draga fram sanngjarna samkeppni á milli sjávarútvegsfyrirtækja og tryggja minni fyrirtækjum aðgang að kvóta. Verðið yrði það sem fyrirtæki væru reiðubúin að greiða fyrir aflaheimildirnar og yrði um leið það veiðigjald sem rynni í ríkissjóð,“ sagði Oddný. Hún spurði Gunnar Braga hvort hann teldi það ekki réttlætismál að í ríkissjóð renni stærri hluti af fiskveiðiauðlindinni en nú sé.
„Ég hef nú gjarnan litið á að veiðigjöldin séu fyrst og fremst aukaskattur á landshluta, og sér í lagi landsbyggðina. Þetta er gjald sem leggst hvað þyngst á fyrirtæki sem eru úti á landi,“ sagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrann. „Ég velti því fyrir mér, af hverju tökum við út eina atvinnugrein, sem er að nota auðlindir landsins? Hvers vegna reiknum við ekki einhvers konar afnotagjald á aðrar atvinnugreinar líka sem eru að nýta auðlindir landsins? Hvort sem það er nú raforka eða þess vegna loftbylgjur, vatn, hvað sem er, ferðaþjónusta þess vegna. Af hverju er ein grein tekin út?“
Oddný spurði Gunnar Braga einnig að því hvort til greina kæmi að bjóða viðbótaraflaheimildir, sem útlit sé fyrir að Hafrannsóknarstofnun leggi til í sumar, út til hæstbjóðanda. Þannig fengist reynsla á uppboðsaðferðina. „Nei ég sé það ekki gerast að við förum með það á uppboð.“