Verðið á hráolíutunninni á Bandaríkjamarkaði er nú komið í tæpa 50 Bandaríkjadali, eftir töluverðar hækkanir að undanförnu. Eins og ávallt er erfitt að segja til um hverjar eru nákvæmlega ástæður fyrir miklum verðsveiflum á olíu, á einstaka viðskiptadögum, en samkvæmt skrifum Wall Street Journal telja greinendur að horfur á mörkuðum séu betri nú en fyrir hálfu ári, þar sem olíuframleiðsluríki hafa dregið úr framleiðslu. Á það meðal annars við um Brasilíu og Venesúela, sem glíma við mikinn vanda vegna víðtækra efnahagserfiðleika. Sérstaklega er staðan erfið í Venesúela, en þar hafa stjórnvöld lýst yfir 60 daga neyðarástandi. Þá hefur vaxandi órói í Nígeríu einnig haft neikvæð áhrif á olíuframleiðslu þar í landi, meðal annars vegna verkfalla.
Miklar sveiflur
Verðið á mörkuðum í dag, 48,16 Bandaríkjadalir á tunnuna þegar þetta er skrifað, er það hæsta sem hefur sést á mörkuðum í sjö mánuði. Fyrir um 20 mánuðum var verðið í 110 Bandaríkjadölum, en var komið niður í 26 Bandaríkjadali, eftir mikla rússíbanareið á mörkuðum, tæplega ári seinna. Þetta leiddi til mikilla efnahagserfiðleika víða, sérstaklega hjá ríkjum sem eru mjög háðar olíu og olíutengdum iðnaði, eins og fjallað var um fréttaskýringum á vef Kjarnans.
Hvað gerist hér á landi?
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur nefnt það, þegar hún hefur rökstutt vaxtaákvarðanir sínar, að eitt af því sem hefur komið í veg fyrir að spár bankans hafi ræst, um að verðbólgan færi á flug, er að olíuverð hafi lækkað hratt og leitt til lægra verðs á innfluttum vörum. Verðbólgan mælist nú 1,6 prósent, og hefur haldist undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans í meira en tvö ár. Meginvextir, svonefndir, eru 5,75 prósent.
Haldi olíuverðið áfram að hækka, gæti það haft áhrif á verð innfluttar vöru, þó tíma muni taka fyrir slíka þróun að koma fram í verðbólgumælingum. Fleiri þættir hafa vitaskuld áhrif, og má þar ekki síst nefna gengi krónunnar. Evran kostar í dag um 140 krónur og Bandaríkjadalur 124 krónur, samkvæmt opinberu gengi Seðlabankans. Krónan hefur styrkst nokkuð, undanfarna mánuði, gagnvart þessum tveimur helstu viðskiptamyntum heimsins.
Gert ráð fyrir meiri verðbólgu
Seðlabankinn gerir ráð fyrir að verðbólga taki að aukast á næstu misserum, og eru það ekki síst launahækkanir fyrirtækja, samkvæmt kjarasamningum, sem munu þrýsta verðlagi upp. Spár bankans hafa þó ekki ræst, og erfitt getur verið að sjá fyrir hvernig mál þróast. Fyrirhugað afnám hafta getur til dæmis verið áhrifavaldur í þessum efnum.