Búist er við því að níu forsetaframbjóðendur, fimm karlar og fjórar konur, nái að skila inn tilskildum fjölda meðmælenda til yfirkjörstjórna og fá vottorð til að fullgilda framboð sitt. Nokkrir hafa helst úr lestinni síðustu daga.
Útlit fyrir að Elísabet sé sloppin
Flest bendir til þess að Íslendingar geti valið um níu einstaklinga í forsetakosningunum. Yfirkjörstjórnir afhenda vottorð vegna meðmæla í dag, sem frambjóðendur þurfa að skila til innanríkisráðuneytisins áður en dagurinn er úti.
Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson voru öll að taka á móti vottorðum frá yfirkjörstjórnum í dag, eða einhver á þeirra vegum.
Allt útlit er fyrir að Elísabet Kristín Jökulsdóttir hafi náð að safna nægum meðmælum, en hún hefur staðið í ströngu undanfarna daga og ferðast um allt land til að safna. Í samtali við Kjarnann segist hún búast við því að þetta hafi náðst.
Sturla segist vera með flestar undirskriftir
Sturla segir í samtali við Kjarnann að hann hafi heyrt frá kjörstjórnum að hann sé með flesta meðmælendur. Hann skilaði inn rúmlega 2.200 bara í Sunnlendingafjórðungi, en lágmarksfjöldi undirskrifta fyrir allt landið eru 1.500.
Magnús Ingi Magnússon, eða Texas-Maggi, dró framboð sitt til baka daginn sem skila átti inn undirskriftum. Hann sagði þá að hann hefði hug á að fara á þing. Benedikt Kristján Mewes hefur einnig dregið framboð sitt til baka, en hann náði aldrei tilskyldum fjölda. Nýjasti frambjóðandinn, Magnús Ingberg Jónsson, náði ekki að skila inn nægum fjölda, en Vísir greinir frá því að um 700 gild meðmæli vanti upp á og ólíklegt verði að teljast að hann nái að skila þeim til Ráðhússins í dag. Kjarninn náði ekki í Baldur Ágústsson, en ekki er talið að hann hafi náð tilskildum fjölda meðmælenda.