Keldan og Gangverð hófu nýverið samstarf. Samstarfið felst í því að áskrifendur Keldunnar geta nálgast nýja þjónustu sem kallast „Verðvísir Fasteigna”. Verðvísir er nýtt fasteignamat sem byggir á tölfræðigreiningu á raunsöluverðum eigna úr þinglýstum kaupsamningum, þar sem eiginleikar eigna á borð við stærð, gerð og staðsetningu ráða mestu og vægi einstakra áhrifaþátta ræðst af reiknireglu sem lágmarkar spáskekku.
Þetta er í fyrsta skipti sem svo nákvæm gögn eru tekin saman með þessum hætti, en notendur geta séð hvert verð var á eignum í nýjustum viðskiptum.
Keldan rekur m.a. fjölmiðlavakt á Vaktarinn.is og vefinn Keldan.is sem er upplýsingaveita sérsniðin að íslensku fjármála- og viðskiptalífi og veitir einstaklingum og fyrirtækjum aðgang að opinberum upplýsingasöfnum eins og hlutafélagaskrá og ársreikningaskrá RSK.
Gangverð er tæknifyrirtæki á sviði tölfræðilegrar greiningar, stofnað 2011. Auk Verðvísis fasteigna beinist vöruþróun Gangverðs að mörkuðum fyrir notaða bíla og skráð verðbréf. Eigendur Gangverðs eru stofnendur og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.