Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins ætlar að halda áfram í stjórnmálum. Hann ætlar að bjóða sig fram sem formaður flokksins á ný og til þings í haust. Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hann segist gera ráð fyrir því að hann njóti áfram stuðnings til þess, og það kæmi honum á óvart ef flokkurinn hans ætlaði að „láta þessa atburðarás“ hafa áhrif á það, þegar ráðist hefði verið að honum.
Sigmundur ræddi í þættinum við Pál Magnússon um atburðarás síðustu vikna, frá því að hann fór á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í byrjun apríl. Hann gagnrýndi forsetann harðlega, meðal annars fyrir að hafa brotið trúnað um fund þeirra. Hann sagði forsetann hafa rokið til í geðshræringu og haldið blaðamannafund um málið.
Sigmundur segist vera að hefja ferð um landið í dag þar sem hann ætli að ræða við kjósendur. Hann sagðist ekki endilega gera ráð fyrir því að kosningar verði haldnar í haust, menn hafi haft „einhverjar hugmyndir“ um það en það hafi alltaf legið fyrir að það væri bara ef hægt væri að ganga frá öllum stóru málunum. „Nú er ég ekki að sjá það gerast fyrir september, október.“ Hann sagðist jafnframt hafa heyrt það, ekki bara í sínum eigin flokki, að það væri ekki hentugt að halda kosningar í haust. „Það sem ég heyri menn telji ekki liggja á kosningum í haust, það er enda margt mjög bagalegt við það að fara í kosningar þegar við erum á þeim tímapunkti að geta farið í sókn.“
Framsókn hafi ekki þvingað hann til afsagnar
Sigmundur sagði í þættinum að flokkurinn hans hafi „engan veginn“ þvingað hann til afsagnar. Hann hafi talið að það væri veruleg hætta á því að ríkisstjórnin myndi falla og hefði verið upplýstur það að ákveðnir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu séð tækifæri til þess að nýta sér þessa stöðu sem upp var komin, jafnvel að sprengja stjórnarsamstarfið og halda kosningar til að stokka upp í sínum röðum. Þess vegna ákvað hann að segja af sér til að koma í veg fyrir þessa stöðu.
Sigmundur Davíð taldi ekki á það hættandi, að á meðan að æsingurinn var mikill, þá þyrfti einhvern veginn að höggva á hnútinn og loka einhverjum leiðum sem einhverjir töldu að væri góð leið til að fella ríkisstjórnina. Það hafi honum tekist.