Alþingi samþykkti í kvöld frumvarp um aflandskrónur svonefndar sem Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram fyrir helgi. Frumvarpið miðar að því að tryggja efnahagslegan stöðugleika með lögum, í tengslum við gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands, sem ráðgert er í næsta mánuði, og leggja grunninn að lokahnykk áætlunar stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Um 300 milljarðar aflandskróna eru í eigu erlendra aðila, þar af meirihlutinn í eigu erlendra sjóða.
Frumvarpið var samþykkt með 47 atkvæðum. Sjö sátu hjá.
Annarri umræðu lauk klukkan skömmu fyrir miðnætti og eftir hana voru afbrigði samþykkt.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra tók til máls, þegar frumvarpið hafði verið samþykkt í þriðju umræðu, og sagðist ánægður með samstöðuna um málið.
Kapp var lagt á að ljúka afgreiðslu málsins hratt, eða fyrir opnun markaða á morgun, 23. maí.