Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sem á að sporna við skattsvikum vegna eignarhalds í lágskattaríkjum. Frumvarpið er viðbragð við upplýsingum sem fram hafa komið um eignir Íslendinga í skattaskjólum, einkum í gegnum Panamaskjölin.
Upplýsingar um möguleg undanskot frá skatti „kalla á tafarlaus og afdráttarlaus viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. Með frumvarpinu er miðað að því að búa svo um að þrengt sé að þeim kostum og leiðum sem hægt er að nota til að fara á svig við skattalög.
Í frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi breytingar:
- Takmörkun á tapsfrádrætti félaga í lágskattaríki.
- Takmörkun á samruna og skiptingu yfir landamæri.
- Flutningar lögheimilis eða eigna til ríkja sem teljast lágskattaríki verði takmarkaðir verulega.
- Endurskoðun á CFC-ákvæðinu, sem fjallar um skattlagningu aðila sem eiga beina eða óbeina eignaraðild að félögum, sjóðum eða stofnunum sem eru heimilisföst í lágskattaríkjum, í átt til frekari skýringar.
- Endurskoðun á upplýsingaskyldu fjármálastofnana og lögmanna.
- Heimild til endurákvörðunar skatts lengd úr sex árum í tíu ár vegna tekna og eigna í lágskattaríkjum sem ekki hefur verið gerð fullnægjandi grein fyrir í skattskilum.
- Fyrningartími sakar lengdur úr sex árum í tíu ár vegna tekna í lágskattaríkjum.
- Aukið aðgengi innheimtumanna að upplýsingum um eignastöðu gjaldenda.
- Efling áhættustjórnunar og aukin greiningarvinna – greiningardeild tollstjóra.
- Hert viðurlög vegna rangrar upplýsingagjafar við innflutning.
Stofna starfshóp gegn nýtingu skattaskjóla
Bjarni hefur einnig skipað starfshóp til að gera tillögur að breytingum sem eiga að mynda frekari aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn skattaundanskotum og nýtingu skattaskjóla almennt. Í hópnum eiga meðal annars sæti Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri, Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri og Snorri Olsen tollstjóri. Einnig eiga sæti lögfræðingar hjá forsætis- og fjármálaráðuneyti, ríkisskattstjóra og tollstjóra og viðskiptafræðingur hjá skattrannsóknarstjóra.
Hópurinn á að skila skýrslu með tillögum sínum fyrir lok júní til Bjarna.