Donald Trump hlaut 76 prósent atkvæða í forkosningum Repúblíkanaflokksins í Washington-ríki sem fram fóru í nótt. Honum vantar nú einungis fjóra kjörmenn til að tryggja sér þann fjölda sem þarf til að fá útnefningu flokksins fyrir forsetakosningarnar í nóvember.
Sigurinn kom í kjölfar þess að Trump mældist í fyrsta sinn í gær með meira fylgi en Hillary Clinton, væntanlegur mótframbjóðandi hans í forsetakosningunum, samkvæmt meðaltali skoðanakannana sem Real Clear Politics tekur saman. Þar mældist Trump með 43,4 prósent fylgi en Clinton með 43,2 prósent.
Það skyggði nokkuð á árangur Trump í nótt að fjöldi mótmælenda kom saman fyrir utan framboðsfund sem hann hélt í Albuqerque í Nýja-Mexíkó. Þeir köstuðu grjóti og öðru lauslegu að lögreglu auk þess sem mótmælendurnir báru skilti þar sem Trump var atyrtur eða gagnrýndur. Ekki sló í brýnu milli mótmælendanna og stuðningsmanna Trump þótt litlu hefði mátt muna.