Finnur Ingólfsson, sem var forstjóri VÍS árið 2003 og leiddi kaup S-hópsins á Búnaðarbankanum með Ólafi Ólafssyni, segir að sér sé „algjörlega ókunnugt um“ að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hafi verið leppur í kaupunum á bankanum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Finnur var varaformaður Framsóknarflokksins, ráðherra og seðlabankastjóri áður en hann snéri sér að viðskiptum og tók þátt í kaupum á bankanum af ríkinu.
Aðkoma þýska bankans að kaupunum hefur verið tortryggð nánast frá því að gengið var frá kaupum S-hópsins á kjölfestuhlut í Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003. Hauck & Aufhäuser var enda einungis kynntur til sögunnar sem meðfjárfestir örfáum dögum áður en kaupsamningurinn var undirritaður en áður hafði verið gefið sterklega í skyn við framkvæmdanefnd um einkavæðingu að franski stórbankinn Societe General væri sú erlenda fjármálastofnun sem væri að fjárfesta með hinum aðilum S-hópsins. Aðkoma erlends banka var lykilatriði í því að réttlæta sölu á Búnaðarbankanum til hópsins. Tveimur árum eftir að gengið var frá sölunni hafði Hauck & Aufhäuser selt allt hlutaféð sem bankinn var skráður fyrir til annarra meðlima S-hópsins.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd óvænt bréf í síðustu viku þar sem hann lagði til að rannsóknarnefnd yrði skipuð um aðkomu þýska bankans að kaupunum. Hann hefði nýjar upplýsingar sem varpað gætu ljósi á raunverulegu aðkomu Hauck & Aufhäuser að þeim. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd virðist ætla að verða við þeirri beiðni Tryggva, sem sjálfur hefur boðist til að starfa með nefndinni, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt að hann sé samþykkur rannsókn.
Finnur spyr Fréttablaðið hvort því þyki líklegt að alþjóðlegur banki standi í því að vera leppur fyrir annan aðila? Hann sagði það vera sér algjörlega ókunnugt og hann viti ekki til þess að það hafi verið. „Enda ef þú leitar í gögnum Ríkisendurskoðunar sem skoðaði þetta mál, þá getur þú séð að það er staðfesting þar frá KPMG endurskoðunarfyrirtækinu frá árinu 2006 um að bankinn er skráður eigandi og hefur fært þetta í bækur sínar og það er líka þar yfirlýsing frá stjórnendum þessa banka um að þeir séu eigendur að þessum bréfum í Eglu[ráðandi aðila í S-hópnum].“
Í blaðinu er einnig rætt við Guðmund Hjaltason, fyrrum forstjóra Eglu. Hauck & Aufhäuser veitti umboð til að fara með hlut sinn í Búnaðarbankanum á meðan að á meintu eignarhaldi þýska bankans stóð. Hann sagðist heldur ekki vita til þess að þýski bankinn hafi verið leppur fyrir aðra. „Ég þekki það ekki og ég þekki engan sem þekkir það, svo ég viti til.“