Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, mun ekki tala fyrir hönd flokksins í almennum stjórnmálaumræðum, eldhúsdagsumræðum, á Alþingi í kvöld. Hann er eini flokksformaðurinn sem ekki tekur þátt í umræðunum. Tíu konur og átta karlar munu tala fyrir hönd flokka sinna í kvöld.
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður flokksins, munu þess í stað tala fyrir hönd flokksins.
Eldhúsdagsumræður fara fram í þremur umferðum og hver þingflokkur hefur tíu mínútur í fyrstu umferð, sex mínútur í annarri og sex mínútur í þriðju umferð. Röð flokkanna verður Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri hreyfingin - grænt framboð, Framsóknarflokkur, Björt framtíð og að lokum Píratar.
Fyrir Samfylkinguna munu fráfarandi formaður og varaformaður flokksins, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir, tala fyrir hans hönd auk Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur.
Hjá Sjálfstæðisflokknum munu Bjarni Benediktsson formaður, Elín Hirst og Vilhjálmur Árnason tala. Fyrir VG mun formaðurinn Katrín Jakobsdóttir halda fyrstu ræðu og svo Ögmundur Jónasson og Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Hjá Bjartri framtíð mun Óttarr Proppé formaður tala fyrst, svo Brynhildur Pétursdóttir og að lokum Róbert Marshall. Píratar hafa ekki formann en allir þingmenn flokksins munu halda ræður, Helgi Hrafn Gunnarsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Birgitta Jónsdóttir.