Þóknun Virðingar hf. fyrir að selja Leigufélagið Klett fyrir Íbúðalánasjóð verður 48,5 milljónir króna þegar gengið verður að fullu frá sölunni. Þetta kemur fram í svari sjóðsins við fyrirspurn Kjarnans um málið. Þar segir að fyrirtækið hafi átt hagstæðasta tilboðið í að sjá um söluna sem hljóðaði upp á að fá 0,48 prósent af heildsöluvirði Kletts. Íbúðalánasjóður er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins og það er í ábyrgðum fyrir skuldum hans.
Tilkynnt var um að Leigufélagið Klettur, sem heldur utan um 450 leiguíbúðir sem komnar voru í eigu Íbúðalánasjóðs, verði selt til Almenna leigufélagsins, sem rekið er af GAMMA, á 10,1 milljörðum krónur. Gengið verður endanlega frá kaupsamningi á allra næstu dögum. Eftir kaupin mun Almenna leigufélagið eiga um eitt þúsund leiguíbúðir. Félagið bauð hæst þeirra sem í buðu og munaði 901 milljón krónum á tilboði þess og því sem lægst var.
Áttu hagstæðasta tilboðið
Í svari Íbúðalánasjóðs segir að þegar ákvörðun um söluna á Leigufélaginu Kletti hafi verið tekin var ákveðið að fela fjármálafyrirtæki að sjá um hana. „Meirihluti stjórnar lagði áherslu á að staðið yrði faglega og heiðarlega að utanumhaldi og framkvæmd sölunnar þar sem horft yrði til þess að hámarka virði eigna sjóðsins.
Óskað var eftir tilboðum frá sex fjármálafyrirtækjum og bárust fimm tilboð innan tilskilins frests. Hæsta tilboðið sem barst var upp á 0,84% af heildarsöluvirði. Virðing hf. átti hagstæðasta tilboðið upp á 0,48% af heildarsöluvirði og var samið við Virðingu í kjölfarið. Þóknun Virðingar hf. fyrir umsjón með söluferli Leigufélagsins Kletts ehf. er að fullu árangurstengd og verður 48.484.800 kr. þegar gengið hefur verið frá sölunni.“