Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir mikilvægt að það skýrist fyrr en seinna hvenær kosningar verða. Hann segir að það styttist í að hægt verði að greina frá kjördegi, en gaf ekki skýrari svör en það, þegar hann svaraði fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni VG, á Alþingi í dag.
Margir þingmenn Framsóknarflokksins hafa undanfarið stigið fram og sagt ýmist misráðið eða óþarfa að ganga til kosninga í haust. Sigurður Ingi hefur ekki verið í þeirra hópi, og hefur sagt að það standi til að efna loforðið um að kjósa í haust. „Framsóknarmenn treysta sér alveg til kosninga eins og hver annar stjórnmálaflokkur,“ sagði Sigurður Ingi á þingi í dag, og bætti því við að flokkurinn hefði hafið sinn undirbúning fyrir kosningarnar eins og aðrir flokkar. Hann sagði svo einnig: „Framsóknarmenn hræðist ekki kosningar. Eftir það sem við höfum afrekað á þessu kjörtímabili þorum við auðvitað að leggja þau verk okkar í dóm kjósenda.“
Sigurður Ingi tók undir það með Steingrími að það væri nauðsynlegt að kjördagur lægi fyrir með góðum fyrirvara. Steingrímur sagði meðal annars nauðsynlegt að gera breytingar á lögum til þess að tryggja að Íslendinga erlendis missi ekki kosningarétt sinn í stórum stíl. Hann minntist einnig á að utankjörfundaratkvæðagreiðsla eigi að hefjast átta vikum fyrir kosningar, og ef kjósa eigi í október þurfi utankjörfundaratkvæðagreiðsla að hefjast um miðjan ágúst. Þá verði líka að gefa flokkum, bæði gömlum og nýjum, tíma til að undirbúa kosningarnar.
Steingrímur var ekki mjög sáttur við svör Sigurðar Inga og sagði framsóknarmenn haga sér eins og „rjúpnahópur sem vill fresta jólunum til þess að fá að lifa í nokkrar vikur í viðbót.“ Það ætti að gefa út kjördag núna og ekki degi seinna.