Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um frestun á fundum Alþingis. Fresta á fundum á morgun, 2. júní, eða síðar ef nauðsyn krefur, að því er fram kemur í tillögunni. Í ályktuninni er einnig kveðið á um að fundir Alþingis hefjist á ný þann 15. ágúst.
Þannig er ekki lokað á þann möguleika að þingið komi saman á ný í næstu viku til að afgreiða einhver mál, jafnvel þótt starfsáætlun þingsins geri ráð fyrir því að morgundagurinn verði síðasti þingfundadagurinn þangað til í ágúst. Þingfundur var að hefjast á Alþingi klukkan þrjú í dag og síðasti þingfundurinn á að hefjast klukkan 10.30 í fyrramálið.
Þingnefndir eiga að starfa í viku í viðbót samkvæmt starfsáætluninni. Þær munu líka koma saman á ný þremur dögum áður en þing á að koma saman 15. ágúst. Þá er þinginu ætlað að funda í tólf daga auk þess að annar eldhúsdagur verður haldinn þá. Gert er ráð fyrir því að þingi verði frestað á ný þann 2. september, og þá lýkur kjörtímabilinu þar sem boða á til kosninga í haust.