Öll félögin í kauphöllinni, fyrir utan og HB Granda og N1, lækkuðu í kauphöllinn í dag. Mesta lækkunin var hjá Icelandair, um tæplega þrjú prósent, í rúmlega eins milljarðs króna viðskiptum. Gengi HB Granda og N1 hækkuðu um innan við eitt prósent.
Þá lækkaði gengi Haga um 2,1 prósent, en gengi bréfa félagsins hefur lækkað töluvert frá því í síðustu viku. Fyrir tæplega viku greindu fjölmiðlar frá skýrslu ráðgjafa- og hugbúnaðarfyrirtækisins Zenter, þar sem segir að innkoma Costco á íslenskan markað, í um 14 þúsund fermetra húsnæði við Kauptún, geti hafa mikil áhrif á smásölumarkaðinn, en þar er Hagar langsamlega stærsta fyrirtækið. Það rekur meðal annars verslanir undir merkjum Bónuss og Hagkaupa. Heildartekjur fyrirtækisins í fyrra námu 78,3 milljörðum í fyrra.
Már Wolfgang Mixa hagfræðingur, sem vann að skýrslunni með Zenter, segir að áhrif komu Costco verði jafnvelmeiri á innflytjendur og heildsala en á aðrar smásöluverslanir. „Í krafti stærðar sinnar getur Costco boðið upp á ýmsar vörur, þar á meðal þekkt vörumerki, á mun lægra verði en íslenskir neytendur hafa mátt venjast hingað til. Ég sé fyrir mér að margir innflytjendur, sem hafa verið með þekkt umboð í lengri tíma, muni finna fyrir komu verslunarinnar hingað,“ sagði Már í samtali við Viðskiptablaðið á fimmtudaginn.
Gengi bréfa Haga hefur fallið úr 49 í 44 á undanfarinni viku, eða frá því fyrst var greint frá efni skýrslunnar. Markaðsvirði Haga hefur lækkað um rúmlega tíu prósent á undanförnum mánuði, og hefur lækkunin að mestu komið til á undanförnum dögum. Vikulækkunin nemur 9,18 prósentum. Virði félagsins er nú rúmlega 51 milljarður króna, samkvæmt upplýsingum á vef Keldunnar.
Uppfært 23:31: Síðastliðinn föstudag var ákveðið að greiða út arð úr Högum, sem nemur 1,7 krónum á hlut, eða um 1,9 milljörðum króna. Þessi ákvörðun aðalfundar skýrir að einhverju leyti lækkun á gengi bréfa félagsins, þó þau hafi einni lækkað í aðdraganda fundarins.