Vegna mikils gjaldeyrisinnstreymis og minnkandi skuldsetningar, þá verður áfram þrýstingur í átt að sterkara gengi krónunnar. Þetta segir í fundargerð Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, frá 31. maí, en hún var gerð opinber í dag. Gengi krónunnar gagnvart evru hefur styrkst töluvert upp á síðkastið, og kostar evran nú 139 krónur. Gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal hefur einnig verið að styrkjast og kostar dalurinn nú 123 krónur. Fyrir ári síðan kostaði hann 136 krónur.
Í fundargerðinni segir að útlit sé fyrir að verðbólga muni haldast undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði fram eftir ári, en verðbólga mælist nú 1,7 prósent og eru svonefndir meginvextir Seðlabankans, 5,75 prósent.
Helsta ástæðan fyrir því að verðbólga geti aukist, eru launahækkanir og hækkandi hrávöruverð, sem skilar sér í hærra verðlagi innfluttra vara.
Hagvaxtarspár gera ráð fyrir fimm ára samfelldu hagvaxtarskeiði á næstu árum, og verður hagvöxturinn 4,3 prósent á þessu ári, ef spá Hagstofu Íslands gengur eftir.
Að mati nefndarinnar „bentu flestar nýjar vísbendingar til þess að áfram væri útlit fyrir öran hagvöxt en nefndarmenn voru jafnframt sammála um að nýjar upplýsingar af vinnumarkaði sýndu að þar gætti vaxandi spennu. Á hinn bóginn væri verðbólga lítil, vöxtur útlána hægur og sakir hagstæðrar skuldastöðu og útlits fyrir áframhaldandi viðskiptaafgang kynni þrýstings til hækkunar á gengi krónu að gæta áfram,“ eins og orðrétt segir í fundargerðinni.
Í nefndinni sitja Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar
Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur, Gylfi Zoëga, prófessor, og Katrín Ólafsdóttir, lektor.