Neytendasamtökin efast um að það gagnist neytendum að einkavæða opinbera atvinnustarfsemi eða að stjórnvöld bjóði út þjónustusamninga nema í undantekningartilfellum. Samkeppniseftirlitið vill að stjórnvöld taki upp svokallað samkeppnismat og það telur að það sé sameiginlegt verkefni atvinnulífs og stjórnvalda að búa í haginn fyrir virka samkeppni á sem flestum sviðum. Þetta kemur fram í svörum við fyrirspurn Kjarnans í tengslum við skoðun Viðskiptaráðs.
„Neytendasamtökin hafa ekki talað fyrir slíkri einkavæðingu né gerð þjónustusamninga sem þarna er lagt til og hafa efasemdir um að það myndi gagnast neytendum nema í undantekningartilvikum,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna. Neytendasamtökin hafa ekki fjallað formlega um þá skoðun sem kemur fram hjá Viðskiptaráði.
Í skoðuninni hvetur Viðskiptaráð stjórnvöld meðal annars að hætta í hefðbundnum atvinnurekstri. Það leggur til að veita fleiri þjónustusamninga og telur að ríkið eigi ekki að vera í tekjuaukandi starfsemi. Í þriðja lagi gagnrýnir Viðskiptaráð hefðbundinn samkeppnisrekstur á vegum hins opinbera.
Það verður að skoða hvert skref vandlega
„Neytendasamtökin hafa ekki talað fyrir slíkri einkavæðingu né gerð þjónustusamninga sem þarna er lagt til og hafa efasemdir um að það myndi gagnast neytendum nema í undantekningartilvikum,“ segir Jóhannes. Neytendasamtökin hafa ekki fjallað formlega um þá skoðun sem kemur fram hjá Viðskiptaráði.
Jóhannes segir þó að nauðsynlegt sé að skoða hvert skref vandlega áður en ákveðið er að einkavæða eða gera í ríkari mæli þjónustusamninga og að metið sé hvaða afleiðingar það hafi; hvort almenningur hagnist eða ekki.
Er þátttakan nauðsynleg?
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að það sé full ástæða fyrir stjórnvöld að huga vel að því hvort og hvernig þau koma að samkeppnisrekstri. „Þótt samkeppnislögin útiloki ekki þátttöku stjórnvalda í samkeppnisrekstri er mikilvægt að þau meti í hverju tilviki hvort þátttakan er nauðsynleg og taki ákvarðanir út frá því. Ef þátttakan er nauðsynleg verður að gera þá kröfu að stjórnvöld raski ekki samkeppni á viðkomandi markaði,“ segir hann í svari sínu við fyrirspurn Kjarnans.
Hann segir að í samkeppnislögum sé til dæmis að finna heimild handa Samkeppniseftirlitinu til þess að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað milli annars vegar opinberrar starfsemi og hins vegar starfsemi sem er í beinni samkeppni við fyrirtæki á frjálsum markaði. Ríkisstyrkjareglum EES-samningsins sé einnig ætlað að vernda sambærilega hagsmuni. Í ýmsum öðrum tilvikum séu möguleikar samkeppnisyfirvalda til íhlutunar óljósari.
Vill fá samkeppnismat
Páll Gunnar segir að samkeppniseftiritið hafi lengi talað fyrir því að stjórnvöld taki upp svokallað samkeppnismat þegar lög og reglur eru undirbúnar. Slíkt mat eigi líka vel við þegar stjórnvöld ákveða þátttöku í atvinnurekstri. Samkeppnismat sé einfalt mat á því hvort viðkomandi ráðstöfun er til þess fallin að skaða samkeppni. Ef svarið er já beri að leita leiða að settu markmiði sem síst skaðar samkeppni.
Hann segir enn fremur að það sé sameiginlegt verkefni atvinnulífs og stjórnvalda að búa í haginn fyrir virka samkeppni á sem flestum sviðum. Stjórnvöld eigi að gera það með því að huga vel að því hvernig þau hafa áhrif á samkeppni í gegnum lög, reglur og þátttöku í atvinnurekstri. Atvinnulífið eigi að gera það með því að fara að samkeppnilögum, s.s. banninu við ólögmætu samráði og misnotkun á markaðsráðandi stöðu.