Mikill meirihluti myndi kjósa rafrænt í kosningum um forseta Íslands ef það væri í boði eða 79,7 prósent þeirra sem taka afstöðu í könnun Fréttalbaðsins sem gerð var á mánudaginn. Frá þessu er greint í blaðinu í dag. Nokkur munur er á svörum yngra fólks og eldra.
Tæplega 90 prósent þeirra svarenda sem eru á aldrinum 18 til 49 ára myndu kjósa með rafrænum hætti miðað við tæplega 70 prósent þeirra sem eru eldri en 50 ára, samkvæmt könnuninni.
Píratar hafa talað fyrir aukinni rafrænni þátttöku almennings í ákvörðunum stjórnvalda. Tilraunir með þetta eru þegar hafnar í kosningum um ákvarðanir einstakra flokka. Þannig hefur formaður Samfylkingarinnar verið kosinn í rafrænni kosningu á landsfundi flokksins undanfarin ár og á aðalfundi Pírata sem fram fór á dögunum var kosið um einstaka mál á rafrænan hátt.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir hins vegar ótímabært að kjósa um mikilvæg mál eins og í forsetakjöri á rafrænan hátt. Til þess sé tæknin ekki orðin nógu öflug og of margir óvissuþættir ríki enn um það hvernig kjósandi hegðar sér í slíkri kosningu. Ákvörðun um fóknari mál eigi því enn heima í kjörklefanum.
„Einfalt dæmi sem varðar kosningaleynd í internetkosningum er að þú getur ekki treyst því að kjósandinn sé einn þegar hann situr fyrir fram tölvuna,“ er haft eftir Helga Hrafni í Fréttablaðinu. „Og þá þarf að vega og meta hvað er heppilegt og við hvaða aðstæður.“
„Málið snýst ekki bara um að skrifa eitthvað forrit og skella því á netið og þá er komið eitthvað rafrænt lýðræði. Þetta er miklu flóknara en það,“ er haft eftir Helga Hrafni.
Heimild er í sveitarstjórnarlögum um rafrænar íbúakosningar sem hefur verið notuð tvisvar; einu sinni í Ölfusi 2015 þar sem kannaður var vilji íbúa um sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög og eitt sinn í Reykjanesbæ sama ár þar sem greidd voru atkvæði um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík vegna uppbyggingar kísilvers þar.
Hlutfall þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar í könnun Fréttablaðsins var 93,2 prósent. Haft var samband við 926 manns og náðist í 802 í könnuninni og svarhlutfallið því 86,6 prósent. Spurninginn hljóðaði svo: „Myndir þú kjósa forseta Íslands með rafrænum hætti, væri sá möguleiki til staðar?“.