Hinn 25. maí 2016 kallaði Seðlabanki Íslands eftir tilboðum um sölu á eignum skráðum í íslenskum krónum gegn greiðslu reiðufjár í erlendum gjaldeyri. Nánar tiltekið er um að ræða aflandskrónaeignir sem „uppfylla skilgreiningu laga nr. 37/2016, svonefndar aflandskrónur“ eins og segir í tilkynningu frá Seðlabankanum.
Aflandskrónaeigendur gerðu í dag, á milli klukkan 10:00 og 14:00, tilboð um sölu á innlendum eignum sínum og kaup á erlendum gjaldeyri. Á næstu dögum verður farið yfir tilboðin.
Erlendum aflandskrónueigendum gefst með útboðinu færi á að losa um eign sína, sem hefur verið í fjármagnshöftum, eins og eignir annarra hér á landi, frá hruni.
Í tilkynningu frá Seðlabankanum var ekki greint frá því hver þátttakan hefði verið. Í öðrum óskyldum fréttum var frá því greint í dag, að ríkissjóður hefði greitt upp skuldabréf sem gefin voru út árið 2011 og voru á gjalddaga í dag. Eftirstöðvar skuldabréfanna námu 503 milljónum Bandaríkjadala eða um 62 milljörðum króna. Bréfin verða greidd af gjaldeyrisinnstæðum ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands.
Seðlabankinn birta niðurstöður útboðsins á heimasíðu Seðlabankans eigi síðar en klukkan 9:00 miðvikudaginn 22. júní 2016.
Aflandskrónuútboðið var lokahnykkurinn í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta, en hún miðar að því að losa um höftin, án þess að ógna stöðugleika hagkerfisins eða gengisstöðugleika.
Aflandskrónur í eigu erlendra aðila nema um 300 milljörðum króna. Fulltrúar bandarísku sjóðanna Eaton Vance Corp. og Autonomy Capital LP á íslandi, sem sagðir eru eiga um 30 prósent af aflandskrónunum, telja lögin um losun fjármagnshafta ganga gegn stjórnarskrárvörðum eignarétti sjóðanna með „bótaskyldum“ hætti, eins og fram hefur komið. Þessu hafa Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, alfarið hafnað.
Í grein í Wall Street Journal segir Bjarni að vogunarsjóðirnir sem eigi aflandskrónur, eigi ekki að fá neinn forgang, umfram almenning hér á landi, þegar komi að því að losa um fjármagnshöftin. Horfa þurfi til almannahagsmuna, þegar stigin séu skref í átt að losun, en búast megi við því að ýmsir þeir sem tali fyrir hagsmunum vogunarsjóðanna láti í sér heyra, þegar þetta ferli sé í gangi. Það komi ekki á óvart, en breyti engu um aðgerðir stjórnvalda hér á landi.