Mikilvægt er að Íslendingar nýti landið sitt þannig að sem flestir geti notið þess. Þetta var inntak hátíðarræðu Sigurðar Inga Jóhanssonar, forsætisráðherra, á Austurvelli í dag. Þar fór fram hátíðardagskrá eins og venja er á þjóðhátíðardeginum 17. júní. Í ár er 72 ára afmæli lýðveldisins fagnað.
Sigurður Ingi sagði í nútímanum væri hins vegar til fólk sem liti á heiminn sem sína fósturjörð. „Landar okkar dreifast nú líka enn meira um jarðarkringluna en áður. Svo virðist sem sífellt fleiri líti á heiminn allan sem sína fósturjörð. Og möguleikar til starfa og góðrar framtíðar liggja að sjálfsögðu víðar en hér á Íslandi. Það er sú samkeppni sem blasir við og þeirri samkeppni eigum við að fagna – en einnig að taka alvarlega.“
Dagskráin hófst á því að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lagði blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli. Sigurður Ingi steig í pontu eftir að Karlakórinn Fóstbræður höfðu flutt Lofsönginn.
„Samfélag er samvinnuverkefni,“ sagði Sigurður Ingi og minnti á að í góðu samfélagi þurfi samtal á milli kynslóða að vera til staðar. Þeir sem yngri eru geti lært af þeim eldri og að þeir eldri geti heilmargt lært af þeim yngri. „[…] best niðurstaða fæst þegar hver og einn leggur til reynslu sína, hugmyndir og vinnu.“
Linda Ásgeirsdóttir í hlutverki fjallkonunnar flutti hluta Söngva helgaða þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944 eftir skáldkonuna Huldu. Að lokinni dagskrá á Austurvelli var gengið í Hólavallakirkjugarð þar sem Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, lagði blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar.
Auðlindir og mannauður virkjaður
Sigurður Ingi sagði Ísland vera auðugt land og að það væri stórt verkefni að allir hafi jafn góð tækifæri til að njóta þessara auðæfa. „Það er því mikilvægt þegar við nýtum það sem landið hefur upp á að bjóða að sem flestir njóti með einum eða öðrum hætti. Ísland er auðugt land, land sem býr við gnægð auðlinda og mannauð mikinn. Þann auð eigum við að nýta til að tryggja sem best að á Íslandi þurfi enginn að líða skort. Það er stórt verkefni sem ekki verður leyst í einu vetfangi, og það verður aðeins leyst þannig að við leggjumst öll á árar - saman.“
Sigurður Ingi minntist á afrek íslensks íþróttafólks á alþjóðlegum vettvangi. „Það er sannarlega eitt mesta stolt lítillar þjóðar að eiga svo gott íþróttafólk, listamenn og vísindamenn í fremstu röð í heiminum. […]Betri hvatningu fyrir litla þjóð sem við ysta haf unir við hátign jökla og bláan sæ, hvatningu til að vinna að enn betri árangri á grunni þess sem þegar er unnið, er vart hægt að hugsa sér.“
Forsætisráðherra lauk svo ræðu sinni á að fara með síðasta erindi Vormanna, ljóðs Guðmunds Guðmundssonar, sem höfundurinn tileinkaði Ungmennafélögum Íslands.