Plain Vanilla, CCP Games og Verne Global fengu um 87 prósent af fjármagni, sem rann til íslenskra sprotafyrirtækja, sem skoðað var í nýrri skýrslu um sprotaumhverfi í Evrópu. Tólf fyrirtæki skiptu með sér 13 prósentum. Skýrslan var unnin á vegum Evrópuráðsins og Startup Europe sem miðar að því að styðja sprotafyrirtæki víðsvegar um Evrópu til frekari vaxtar. Skýrslan var unnin af Mind the Bridge – samtökum í þágu sprotastarfs sem sérhæfa sig í að tengja tæknisprota og stórfyrirtæki. Norðurskautið, fréttasíða um nýsköpun á Íslandi, aðstoðaði við gagnaöflunina.
Íslensk fyrirtæki hafa safnað yfir 26 milljörðum króna
Á síðastliðnum fimm árum hafa fimmtán fyrirtæki á Íslandi náð að verða vaxtafyrirtæki (e. scaleup), það er fyrirtæki í vexti sem búin eru að ná lágmarks fjármögnun upp á milljón dollara. Íslensk fyrirtæki hafa samtals safnað 200 milljónum dollara í fjármögnun eða rúmlega 26 milljörðum króna.
Skýrslunni er ætlað að varpa ljósi á stöðu framtaksfjárfestinga á Íslandi og bera saman við önnur lönd í Evrópu. Þar kemur í ljós að Ísland, ásamt hinum Norðurlöndunum, stendur framarlega þegar kemur að fjölda fyrirtækja sem fengið hafa stærri framtaksfjárfestingar.
Auðveldara fyrir stóru fyrirtækin að afla fjár
Guðbjörg Rist Jónsdóttir, forsvarsmaður rannsóknarinnar hjá Norðurskauti, segir að það beri að hafa í huga að skýrslan nái einungis til upplýsingafyrirtækja og því vanti til dæmis ORF líftækni sem hefur verið að fá háar upphæðir.
Hún segir að það hafi verið talað um það að ef fyrirtækjum hafi tekist að afla fjár á annað borð þá sé auðveldara að bæta ofan á. Hugsanlega vanti millifjárfestingar en það séu tiltölulega fá fyrirtæki sem ná að útvega sér fjármagn. Hún segir að dreifingin sé betri í öðrum löndum og að ekki sé eins afgerandi munur annars staðar. Hún bætir við að hugsanlega sé hægt að skýra þennan mun með smæð landsins.
Einnig ber að taka það fram að skýrslan fjallar einungis um fyrirtæki sem náð hafa að lágmarki milljón dollurum, eða um 125 milljónum króna, í fjármögnun frá framtaksfjárfestum.
Framtaksfjármagn hlutfallslega hæst á Íslandi
Í skýrslunni kemur fram að það eru fleiri fyrirtæki á Íslandi sem náð hafa lágmarksfjármögnun til að kallast vaxtafyrirtæki, miðað við höfðatölu en annars staðar í Evrópu. Hlutfall framtaksfjármagns af landsframleiðslu á Íslandi er það hæsta á Norðurlöndunum, samkvæmt útreikningum MtB.
Kjarninn hefur fjallað um fjárfestingar í þessum þremur stærstu fyrirtækjum Plain Vanilla, CCP Games og Verne Global.