Nær öll tilboð sem bárust Seðlabankanum í gjaldeyrisútboði bankans voru samþykkt. Útboðinu lauk í dag en það var liður í losun fjármagnshafta samkvæmt áætlun stjórnvalda síðan í fyrra. Gengist var við öllum tilboðum sem bárust á genginu 190 krónur á hverja evru eða lægra.
Alls bárust 1.646 tilboð og var 1.619 tilboðum tekið, eða rúmlega 98 prósent allra tilboðanna. Fjárhæð samþykktra tilboða nemur rúmlega 72 milljörðum króna af tæplega 178 milljörðum króna sem boðnar voru út í útboðinu. Í kjölfar útboðsins minnkar gjaldeyrisforði Seðlabankans um rúmlega 47 milljarða króna, að því er kemur fram í tilkynningu á vef Seðlabankans.
Í framhaldi af þessu hefur verið ákveðið að Seðlabankinn bjóðist til að kaupa þær aflandskrónueignir sem ekki voru seldar í útboðinu á 190 krónur á hverja evru. Nánar verður greint frá fyrirkomulagi þesara viðskipta á morgun, að því er segir í tilkynningu.
Ljóst er því að útboðið hefur ekki leyst allan vandann varðandi aflandskrónurnar, sem eru um 300 milljarðar, og stór hluti þeirra sem áttu aflandskrónur virðist hafa ákveðið að taka ekki þátt í útboðinu.