Íslenskum þingmönnum hefur borist tölvupóstur frá Donald Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikana í Bandaríkjunum, þar sem hann óskar eftir styrkjum við framboðið sitt. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, er einn þeirra þingmanna sem hafa fengið slíkt skeyti. Nútíminn greinir frá þessu og fullyrðir að ekki sé um svindl að ræða.
Donald Trump hefur ítrekað látið hafa eftir sér að hann eigi „ótakmarkaða“ sjóði sem hann muni nota til að fjármagna kosningabaráttu sína sjálfur. Framboð hans safnar hins vegar peningum frá almenningi þrátt fyrir þessi orð frambjóðandans. Reuters greinir frá því að í maí hafi hann aflað 3,1 milljón dollara frá einstaklingum. Upphæðirnar sem Trump tekst að safna eru hins vegar smápeningar í samanburði við þær upphæðir sem Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrata, hefur safnað. Í maí safnaði Clinton 26 milljónum dollara.
Katrín Jakobsdóttir segist ekki ætla að verða við ósk Donald Trump enda hafi hún ekki fundist mikið til málflutnings hans koma. Nútíminn hefur póstinn undir höndum og hefur kannað uppruna hans. „Pósturinn barst úr tölvupóstfangi Trump og tenglarnir í póstinum vísa á raunverulega söfnunarsíðu framboðs repúblikanans orðljóta. Það verður því ekki betur séð en að pósturinn hafi borist frá framboði Donalds Trump,“ segir í fréttinni.
Morgunblaðið segir svo frá því að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hafi einnig fengið póstinn. Hún ætli ekki heldur að styrkja Trump. Hún hafi setið á kaffihúsi ásamt Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar Alþingis, sem hafi líka fengið póstinn.
Samkvæmt bandarískum kosningalögum er forsetaframboðum óheimilt að þiggja fé frá þeim sem ekki hafa bandarískan ríkisborgararétt. Donald Trump er því hugsanlega að fara á svig við kosningalög þar í landi með því að senda styrkbeiðnir á íslenska þingmenn.