Árni Harðarson, stjórnarformaður og aðstoðarforstjóri Alvogen, greiðir hæst opinber gjöld allra hérlendis í fyrra samkvæmt lista Ríkisskattstjóra um álagningu einstaklinga árið 2016. Alls greiddi Árni 265,3 milljónir króna í opinber gjöld. Þetta kemur fram á lista ríkisskattstjóra yfir þá 20 einstaklinga sem greiddu hæstu opinberu gjöldin í fyrra.
Fjórir af tíu hæstu greiðendum opinberra gjalda hérlendis eru núverandi eða fyrrverandi lykilstjórnendur ALMC, sem áður hét Straumur/Burðarrás. Christopher M. Perrin, stjórnarformaður ALMV, greiddi næst hæstu opinberu gjöldin vegna síðasta árs, eða um 200 milljónir króna. Í næsta sæti á eftir honum kemur Jakob Már Ásmundsson sem var forstjóri ALMC fram á árið 2013. Hann greiddi alls 193 milljónir króna í opinber gjöld. Lögmaðurinn Óttar Pálsson, sem er einn eigenda Logos og einn helsti innlendi ráðgjafi stærstu kröfuhafa föllnu bankanna, situr í sjötta sæti listans. Hann er líka fyrrum forstjóri ALMC og situr enn í stjórn félagsins. Óttar greiddi 143 milljónir króna í opinber gjöld í fyrra. Þá situr Andrex Sylvain Bernhardt, fyrrverandi framkvæmdastjóri ALMC og núverandi stjórnarmaður félagsins, í tíunda sæti skattalistans. Hann greiðir um 113 milljónir króna í opinber gjöld.
Ferðaþónustan gefur vel
Ferðaþjónustan á líka sína fulltrúa á skattakóngalistanum. Þórir Garðarsson og Sigurdór Sigurðsson, eigendur Iceland Excursions, sitja fjórða og fimmta sæti listans. Þeir borga annars vegar 163,4 milljónir króna og hins vegar 160,4 milljónir króna í opinber gjöld. Grímur Sæmundsen, forstjóri og einn eigenda Bláa lónsins, situr í 20. sæti listans og borgar rúmlega 80 milljónir króna í skatta og önnur opinber gjöld.
Fjórar konur eru á listanum í ár en 16 karlar. Efst kvenna er Þórlaug Guðmundsdóttir og situr hún í tólfta sæti. Hún greiddi 101 milljón króna í opinber gjöld.
Langvarandi deilur við Björgólf Thor
Skattakóngurinn Árni Harðarson hefur verið nokkuð áberandi í fjölmiðlum undanfarin misseri, Hann og Róbert Wessman, forstjóri Alvogen og helsti samstarfsmaður Árna, hafa háð opinbert orðaskak við Björgólf Thor Björgólfsson, ríkasta Íslendinginn um ýmis málefni.
Í október 2015 var t.d. þingfest hópmálsókn fyrrum hluthafa í Landsbankanum gegn Björgólfi Thor. Kjarninn greindi frá því tveimur dögum síðar að félag í eigu Árna ætti um 60 prósent þeirra hlutabréfa sem væru að baki hópmálsókninni. Árni á hlutabréfin, sem hann keypti af islenskum lífeyrissjóðum í vikunni á undan, í gegnum félag sem heitir Urriðahæð ehf. Samtals greiddi Árni á milli 25 til 30 milljónir króna fyrir hlutabréfin, sem eru verðlaus nema að til hefði tekist að fá viðurkennt fyrir dómstólum að Björgólfur Thor ætti að greiða fyrrum hluthöfum Landsbankans skaðabætur.
Til viðbótar þurfti Urriðhæð að greiða sinn hluta málskostnaðar. Hann gat auðveldlega hlaupið á tugum milljóna króna ef málið hefði verið dómtekið. Því er ljóst að Árni lagði í umtalsverðan kostnað til að taka þátt í hópmálsókninni og styrkja grundvöll hennar.
Björgólfur Thor neitaði ávallt sök og í byrjun maí komust íslenskir dómstólar að þeirri niðurstöðu að málið væri ekki tækt til fyrirtöku eins og það var framsett. Málsóknarfélagið gæti þó haldið málinu áfram með nýrri stefnu sem gerð væri í samræmi við leiðbeiningar Hæstaréttar.
Listinn yfir 20 hæstu greiðendur opinberra gjalda:
Árni Harðarson 265.319.825
Christopher M Perrin 200.033.697
Jakob Már Ásmundsson 193.218.
Þórir Garðarsson 163.175.914
Sigurdór Sigurðsson 160.403.826
Óttar Pálsson 142.730.845
Valur Ragnarsson 133.059.910
Sigurður Reynir Harðarson 131.512.950
Kristján V Vilhelmsson 129.060.207
Andrew Sylvain Bernhardt 112.810.485
Jakob Óskar Sigurðsson 101.488.387
Þórlaug Guðmundsdóttir 100.992.418
Þorvaldur Ingvarsson 93.116.177
Egill Jónsson 86.244.009
Kári Stefánsson 84.516.529
Guðbjörg Edda Eggertsdóttir 83.537.457
Þuríður Ottesen 81.246.007
Benedikt Sveinsson 80.440.300
Ingibjörg Lind Karlsdóttir 80.290.404
Grímur Karl Sæmundsen 80.089.69