Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og forsetaframbjóðandi, er með hærri mánaðarlaun heldur en allir hinir forsetaframbjóðendurnir átta til samans. Samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag er Davíð með rúmar 3,6 milljónir króna á mánuði í laun. Allir hinir eru til samans með 2,3 milljónir króna í mánaðarlaun. Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og verðandi forseti, er með 657 þúsund krónur í mánaðarlaun samkvæmt Tekjublaðinu. Sturla Jónsson er með lægstu launin, um 190 þúsund krónur á mánuði.
Samkvæmt Tekjublaði DV, sem einnig kom út í dag, er Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, með 6,4 milljónir króna í mánaðarlaun á árinu 2015. Skúli Mogensen, forstjóri WOW Air, var með 2,2 milljónir í laun. Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu og tannlæknir, var með 994 þúsund á mánuði. Halldóra Geirharðsdóttir leikkona var með 904 þúsund krónur.
Í DV kemur einnig fram að Rakel Óttarsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar- og markaðssviðs Arion banka, er með rúmar 2.4 milljónir á mánuði og er hún hæst launuð í flokknum Markaðsmál og almannatengsl. Halldór Kristmannsson, upplýsingafulltrúi Alvogen, er næslaunahæstur, með tæpar 2,4 milljónir á mánuði.
Skattakóngur Íslands, Árni Harðarson, var með 47,7 milljónir í tekjur á mánuði samkvæmt Frjálsri verslun. Valur Ragnarsson, forstjóri Medis, er með næsthæstu launin, með rúmlega 24 milljónir á mánuði. Í þriðja sæti er Jakob Óskar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Promens, með 18 milljónir. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er með aðeins yfir sjö milljónir og Liv Bergþórudóttir, forstjóri Nova, með um 3,9 milljónir á mánuði.
Listi Frjálsrar verslunar er byggður á útsvarsskyldum tekjum á árinu 2015. Þær þurfa því ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Í einhverjum tilvikum kann skattstjóri að hafa áætlað tekjur. Tekjublað DV byggir á greiddu útsvari samkvæmt álagningarskrám Ríkisskattstjóra (RSK).