Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í komandi þingkosningum, sem fyrirhugaðar eru í haust. Áður hafði Helgi, sem nýtur mikilla persónuvinsælda hjá kjósendum, sagt að hann ætlaði fram. Helgi segir að hann sé ekki að hætta í stjórnmálum, heldur að færa sig til og starfa innan flokksins. „Ég er ekki í stjórnmálum fyrir persónufylgi,“ segir hann.
Hann greinir frá þessu í myndbandi á heimasíðu Pírata. Þar segir Helgi einnig að hann hyggist bjóða sig fram í kosningunum 2020, eða fyrr ef stjórnarskrársbreytingar krefjast þess. Ákvörðun sé ekki tekin til að taka minni þátt í pólitík. Þvert á móti ætli hann að leggja krafta sína í grasrótarstarf Pírata á næsta kjörtímabili. Með þessari ákvörðun vill Helgi Hrafn sína í verki þá hugsjón sína að byggja brú milli þings og þjóðar og koma aftur heim í grasrótina. Hann vill líka byggja brú milli þingflokks og flokksins sjálfs, sem séu mjög ólíkar stofnanir. Hann vill m.a. að Píratar skrifi sínar eigin þingsályktunartillögur.
Helgi var kosinn á þing fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður vorið 2013.
Stuðningur við Pírata hefur vaxið gríðarlega á þessu kjörtímabili. Flokkurinn fékk 5,1 prósent í kosningunum 2013 en mælist nú með 28,3 prósent í kosningaspá Kjarnans. Lengi vel mældist flokkurinn með yfir 30 prósent fylgi.
Hægt er að sjá myndband Helga hér að neðan: