Seðlabanki Íslands hefur veitt lífeyrissjóðum landsins og öðrum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar undanþágu frá fjármagnshöftun til að fjárfesta fyrir 40 milljarða króna erlendis. Heimildin gildir frá deginum í dag og til loka september, eða í þrjá mánuði. Áður hafði Seðlabankinn heimilað sjóðunum að fjárfesta fyrir samtals 40 milljarða króna frá miðju ári í fyrra, en í þremur skrefum. Því eru þær tilslakanir sem sjóðunum voru veittar í dag þær langmestu sem Seðlabankinn hefur veitt þeim frá því að höft voru sett á hérlendis í lok árs 2008.
Í fréttatilkynningu frá Seðlabanka Íslands vegna þessa segir að gjaldeyrisinnstreymi það sem af er þessu ári, ásamt minni óvissu um þróun greiðslujafnaðar í framhaldi af aflandskrónaútboði og nauðasamningum slitabúa, hafi skapað svigrúm til frekari fjárfestingar lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila séreignarsparnaðar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. „Eins og áður eru rökin fyrir undanþágunni þau að þjóðhagslegur ávinningur fylgir því að gera lífeyrissjóðunum kleift að bæta áhættudreifingu í eignasöfnum og minnka uppsafnaða erlenda fjárfestingarþörf þeirra þegar fjármagnshöft verða losuð á innlenda aðila. Þar með er dregið úr hættu á óstöðugleika í gengis- og peningamálum við losun fjármagnshafta. Til lengri tíma litið hafa þessar auknu heimildir sjóðanna hverfandi áhrif á gjaldeyrisstöðuna því gera má ráð fyrir að gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna á næstu mánuðum muni draga úr þörf þeirra til gjaldeyriskaupa í framtíðinni.“
Fjárfestingarheimildinni verður skipt á milli lífeyrissjóðanna og annarra vörsluaðila með þeim hætti að annars vegar verður horft til samtölu eigna, sem fær 86 prósent vægi, og hins vegar til iðgjalda að frádregnum lífeyrisgreiðslum, sem fær 14 prósent vægi. Útreikningurinn byggir á upplýsingum úr síðustu ársreikningabók Fjármálaeftirlitsins um lífeyrissjóði, þ.e. tölum frá árinu 2014.