Karlar eru bæði miklu fleiri í stjórnunarstöðum og hafa mun hærri tekjur en konur, samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar, sem gaf í morgun út sitt árlega tekjublað.
Verulegur munur er á launum karla og kvenna meðal forstjóra, millistjórnenda og starfsmanna í fjármálafyrirtækjum. Þetta stafar meðal annars af því að miklu færri konur eru í stöðum æðstu stjórnenda í stórfyrirtækjum.
Í úttekt Frjálsrar verslunar, sem tekið skal fram að er ekki tæmandi, kemur fram að laun 450 forstjóra hafi verið skoðuð. Þar af voru 376 karlar og 74 konur. Konurnar höfðu að meðaltali 1.423 þúsund krónur í laun á meðan karlar höfðu að meðaltali 2.238 þúsund krónur á mánuði. Það þýðir að konurnar höfðu að meðaltali tæplega 64 prósent af meðallaunum karlanna.
Hjá millistjórnendum voru 600 í úrtakinu, 417 karlar og 183 konur. Konurnar höfðu að meðaltali 1.320 þúsund krónur á mánuði en karlarnir 1.670 þúsund krónur. Það samsvarar því að konurnar séu að meðaltali með 79 prósent launa karlanna.
Í flokki starfsmanna fjármálafyrirtækja voru 340 í úrtakinu, 85 konur og 255 karlar. Konurnar eru að meðaltali með tæplega 72% af launum karlanna, eða að meðaltali 1.523 þúsund krónur í mánaðarlaun á meðan karlarnir eru að meðaltali með 2.116 þúsund krónur í laun.
Ein kona fyrir hverja níu karla
Kjarninn hefur undanfarin þrjú ár tekið saman upplýsingar um karla og konur í stjórnunarstöðum í efstu lögum íslenska fjármálageirans. Á þessu ári er staðan þannig að fyrir hverja níu karla sem stýra peningum á Íslandi er aðeins ein kona. Kjarninn skoðaði stöðun hjá æðstu stjórnendum viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, félaga á leið á markað, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og -miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnanna, Kauphallar og íbúðalánasjóða.
Störfin sem um ræðir eru 92 talsins. Í þeim sitja 85 karlar en sjö konur. Því eru um 92 prósent allra þeirra sem stýra peningunum í íslensku samfélagi karlar. Og það hlutfall hefur nánast ekkert breyst á undanförnum þremur árum.
Ein kona stýrir banka á Íslandi og ein sparisjóði. Ein kona stýrir lánafyrirtæki, tvær lífeyrissjóðum, ein Framtakssjóði Íslands, og einu skráðu félagi á markaði er stýrt af konu. Þetta þýðir meðal annars að engu verðbréfafyrirtæki er stýrt af konu og engu orkufyrirtæki eða óskráðu tryggingafélagi. Sex konur eru stjórnarformenn í skráðum fyrirtækjum og tíu karlar. Svo er forstjóri Kauphallarinnar karl, það eru líka seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og aðalhagfræðingur Seðlabankans.
Þrátt fyrir að lög séu í gildi um að hlutföll hvors kyns í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn væri að minnsta kosti 40 prósent er það langt frá því að vera tilfellið. Í annarri samantekt Kjarnans kom fram að af 982 stjórnarmönnum í 270 stærstu fyrirtækjum landsins væru 665 karlar og 317 konur. Það þýðir 32% konur og 68% karlar. Dæmigerður stjórnarmaður í íslensku atvinnulífi er karlmaður á sextugsaldri.