ASÍ og BSRB gagnrýna harðlega hækkun launa þeirra hópa sem falla undir kjararáð. Greint hefur verið frá því að laun ráðuneytisstjóra hafi um mánaðamótin hækkað um 36-37 prósent og laun skrifstofustjóra um 28-35 prósent. Aðrir hópar sem heyra undir ráðið hækka um 7,15 prósent. Kjararáð vísaði meðal annars til þess að ráðuneytum hefði fækkað og þau væru almennt stærri en áður.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að ef nýjustu hækkanirnar verði ekki dregnar til baka sé það ávísun á kröfu um leiðréttingar frá öðrum hópum. „Ef Alþingi verður ekki kallað saman nú þegar þar sem forsætisráðherra setur fram frumvarp sem afturkalli þessa vitleysu er alveg ljóst að kjaradómur hefur kallað yfir okkur nýja bylgju leiðréttinga einstakra hópa!“ segir hann á Facebook.
Það verði ekki þannig að þeir tekjuhæstu fái sérstaka meðferð. „Við ætlumst til þess að þessir aðilar deili kjörum með almenningi í þessu landi. Ef ekki þá munum við deila kjörum með þeim.“
Kjararáð ætli sér að leiðrétta „aðallinn“ í landinu áður en aðferðafræðin, sem felst í nýju samningamódeli og skrifað var undir með svokölluðu SALEK samkomulagi, verði að veruleika. „Þetta er frábært framlag Kjararáðs til þess vandasama verkefnis sem aðilar vinnumarkaðar hafa verið að vinna að undanfarna mánuði að bæði móta og vinna að því að ná samstöðu um nýtt samningamódel.“
BSRB mótmælti ákvörðun kjararáðs harðlega og segir hana ganga gegn rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Með þessari ákvörðun sé verið að draga út afmarkaðan hóp hálaunafólks og hækka laun hans langt umfram aðra launahópa. Bandalagið segir að ekki sé efast um að álag í starfi þeirra hafi aukist en slíkt eigi líka við um aðra hópa. „Við hjá BSRB gerum þá kröfu að allir landsmenn taki þátt í því að byggja upp nýtt vinnumarkaðskerfi og höfum unnið að því síðustu ár að breyta kerfinu þannig að við losnum við endalausar leiðréttingar starfsstétta. Aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér rammasamkomulag sem átti að koma í veg fyrir slíkt höfrungahlaup á vinnumarkaði. Þessi hækkun launa ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra hjá ráðuneytunum er langt umfram það samkomulag og því algerlega óásættanleg,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.