Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vill gera breytingar á lögum um kjararáð og segir það löngu tímabært. Hann ætlar að leggja fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögunum, þar sem hundruð embættismanna færu undan ákvörðunum ráðsins og þeim væri veittur samningsréttur. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
„Ég hef látið semja frumvarp þar sem við stórfækkum þeim sem heyra undir ráðið, og færum þeim aftur samningsrétt,“ sagði Bjarni við RÚV. „Losum undan ákvörðunum kjararáðs stóra hópa, til dæmis skrifstofustjóra, forstöðumenn í félögum sem ríkið er í meirihlutaeigu með, presta, prófasta, biskup og vígslubiskup og sendiherra.“
Hann segist hafa skilning á því að fólki bregði þegar það sjái miklar launahækkanir í einu stökki, eins og tilfellið er núna með ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í ráðuneytum, sem hækka um fjórðung í launum samkvæmt ákvörðun kjararáðs. Eins og Kjarninn greindi frá í morgun hefur verkalýðsforystan gagnrýnt þetta harðlega.
Bjarni segist eiga von á breiðri samstöðu um breytingar á kjararáði, en hann hefur kynnt frumvarpið forystumönnum allra flokka á þingi.