Bretar tóku ákvörðun um að taka þátt í innrásinni í Írak árið 2003 áður en búið var að reyna til fulls allar friðsamlegar aðgerðir til að koma Saddam Hussein frá völdum. Hernaðaraðgerðir á þessum tímapunkti voru ekki síðasta neyðarúrræðið. Þetta er niðurstaða Chilcot-nefndarinnar í Bretlandi, sem hefur rannsakað hlut Bretlands í Íraksstríðinu að beiðni breska þingsins.
Skýrslan er mjög gagnrýnin í garð Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra Bretlands.
Í skýrslunni kemur fram að það hafi ekki verið nein yfirvofandi hætta sem stafaði af Saddam Hussein. Hægt hefði verið að undirbúa aðgerðir gegn honum í mun lengri tíma en gert var.
Tony Blair er einnig sagður hafa viljandi ýkt hættuna sem stafaði frá Írak til þess að styrkja málstað sinn gagnvart þingmönnum og almenningi í aðdraganda innrásarinnar. Hann hafi látið sem ógnin af Írak hafi verið meiri en hún var, og gert minna úr áhættunni við það að ráðast þar inn.
Þá hafi Blair og stjórnvöld, þrátt fyrir miklar aðvaranir, vanmetið afleiðingarnar af innrásinni. Undirbúningur og skipulagning að uppbyggingu Íraks eftir Saddam hafi verið með öllu óviðunandi. Breskum stjórnvöldum hafi mistekist ætlunarverk sitt.
Blair er sagður hafa treyst um of á sjálfan sig og eigin dómgreind.
Fréttin verður uppfærð.